Fótbolti

Aron Einar: Við það að fara heim í hálfleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Álaborg skrifar
Aron Einar Gunnarsson segir að það hafi verið ömurlegt að þurfa að fylgjast með sínum mönnum úr stúkunni þegar að Ísland tapaði í gær fyrir Sviss, 2-0, á EM U-21 liða í Danmörku.

„Ég var við það að fara í hálfleiknum og var alls ekki gaman að vera upp í stúku þegar liðið fékk á sig mark á fyrstu mínútunni - og geta ekkert gert. Að vera alveg ráðalaus upp í stúkunni, geta ekki sagt strákunum neitt eða reynt að peppa þá upp. Þetta var ömurleg tilfinning,“ sagði Aron en viðtalið má sjá í heild sinni hér fyrir ofan.

„En þetta er búið og það er bara næsti leikur. Ég ætlaði að gera sjálfur vel á þessu móti og mig langaði til að hjálpa liðinu. Það var því mjög erfitt að geta ekki tekið þátt í þessum mikilvæga leik gegn Sviss eftir tapið gegn Hvít-Rússum. Svona er þetta bara, ég tók út mitt leikbann og kem graður inn í leikinn gegn Dönum.“

Þegar þarna var komið í viðtalinu voru Haraldur Björnsson, markvörður liðsins, og aðrir leikmenn farnir að gera sitt allra besta til að koma Aroni Einari úr jafnvægi í viðtalinu.

Aron Einar náði þó að halda viðtalið út, þrátt fyrir til dæmis að hafa þurft að ríghalda í buxnastrenginn sinn lengi vel. Sjón er sögu ríkari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×