Lífið

Hef aldrei viljað sigra heiminn

Sissel Kyrkjebø söng norska sálminn Til ungdommen í minningarathöfn um fórnarlömbin í Útey en lagið var hálfgert einkennislag þessa mikla harmleiks. Fréttablaðið/GVA
Sissel Kyrkjebø söng norska sálminn Til ungdommen í minningarathöfn um fórnarlömbin í Útey en lagið var hálfgert einkennislag þessa mikla harmleiks. Fréttablaðið/GVA
Í hugum margra á Norðurlöndunum eru jólin ekki komin fyrr en Sissel Kyrkjebø er komin á fóninn. Norska söngkonan er komin til landsins, syngur á tónleikum Frostrósa um helgina í Hörpu og segist sjálf vera mikið jólabarn.

„Þetta er í fjórða sinn sem ég kem hingað. En ég verð að fara heimsækja landið að sumri til, ég hef alltaf komið hingað á veturna," segir Sissel þegar hún kemur sér fyrir á annarri hæð Hörpu. Hún dásamar húsið um leið og síðustu sólargeislarnir smeygja sér inn en þetta er í annað sinn sem Sissel syngur á jólatónleikum Frostrósa. Hún bætir því við að hún hafi komið í myrkri og sé því þakklát að fá að upplifa smá dagsbirtu. „Ég er búin að lofa dætrum mínum að næst þegar ég fari til Íslands komi þær með."

Það lá snemma fyrir að Sissel yrði söngkona, hún vakti ung athygli fyrir rödd sína og sló eftirminnilega í gegn árið 1986 þegar hún söng í hléi Eurovision-keppninnar í Bergen, sama ár og Íslendingar tóku fyrst þátt með Gleðibanka Icey-tríósins. Árið eftir var henni boðið að syngja fyrir hönd Noregs í keppninni. „En ég var búin með Eurovision, ég var líka svo ung, bara sextán ára og langaði að gera svo margt annað eins og að klára skólann. Ég hef heldur aldrei haft þessa hvöt, að verða heimsfræg og sigra heiminn."

Ein mesta selda plata Noregs frá upphafi er jólaplata Sissel, Glade Jul, sem kom út árið 1987. Hún hefur í dag selst í meira en einni milljón eintaka. Sissel segist sjálf vera mikið jólabarn og hún elski þennan tíma. „Ég hef hins vegar aldrei leitt hugann að því að vera hluti af jólahaldi fólks en það er bara gaman ef maður hefur þessi áhrif. Ég elska jólalög og hef auðvitað farið í svona jólatónleikaferðlög undanfarin ár. En í ár er það bara Ísland sem ég heimsæki," segir Sissel sem á sér auðvitað sín eigin eftirlætisjólalög. „Heims um ból er í miklu uppáhaldi hjá mér af því að það er svo hreint og maður hefur auðvitað alist upp við það. Ó helga nótt er síðan ákaflega sterkt jólalag."

Sissel hefur daðrað við ólíkar tónlistarstefnur, sungið popp, kántrí og jafnvel hipphopp fyrir utan hina hefðbundnu klassík og þjóðlög. Þá er það kannski ekki á allra vitorði að Sissel á heiðurinn af söngnum í tónlist kvikmyndarinnar Titanic. Söngkonan leyfir sér reyndar að efast um að hún eigi einhvern tímann eftir að leggja kántrýið fyrir sig, það hafi verið svolítið skondið hliðarskref. „Ágætis söngkennari sagði mér að röddin mín væri eins og Steinway-flygill. Sem er örugglega eitt mesta hrós sem ég hef fengið. En hún sagði að það væri hægt að spila allar tónlistarstefnur á þennan flygil, þetta væri bara allt spurning um tækni og að eyðileggja ekki hljóðfærið."

Hryðjuverkin í Útey og Ósló í sumar vöktu mikinn óhug og Sissel söng í minningarathöfninni fyrir fórnarlömbin sem haldin var í lok ágúst að viðstöddum þjóðhöfðingjum Norðurlandanna. Hún fékk það erfiða hlutskipti að syngja norska sálminn Til ungdommen sem varð hálfgert einkennislag þessa mikla harmleiks. Sissel kemst örlítið við þegar hún er beðin um að rifja upp þessa einstöku stund. „Inni í herberginu þar sem listamennirnir hafast við og nota til að slaka á og spjalla saman var dauðaþögn allan tímann, fólk sat bara og hlustaði. Og þegar nöfnin voru lesin upp þá risu allir úr sætum. Þetta var mjög sérstök en um leið mjög sterk stund." freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.