Erlent

Bráðabirgðastjórn Egypta segir af sér vegna mótmæla

Mótmælendurnir hafa skotið steinum úr teygjubyssum og kastað eldsprengjum að brynvarinni lögreglu. Á móti skýtur lögregla táragashylkjum og gúmmíkúlum. Á þriðja tug liggja nú í valnum.Fréttablaðið/ap
Mótmælendurnir hafa skotið steinum úr teygjubyssum og kastað eldsprengjum að brynvarinni lögreglu. Á móti skýtur lögregla táragashylkjum og gúmmíkúlum. Á þriðja tug liggja nú í valnum.Fréttablaðið/ap
Bráðabirgðastjórnin sem ríkt hefur undanfarna mánuði í Egyptalandi sagði af sér í gær í skugga mikillar mótmælaöldu sem staðið hefur frá því á laugardag.

Stjórnin hefur sætt mikilli gagnrýni fyrir dugleysi og undirlægjuhátt í samskiptum við herinn. Samhliða uppsögninni lýsti hún því yfir að hún hygðist þó áfram fara með daglega stjórn landsins þar til ákveðið yrði hvernig brugðist skyldi við.

Öryggissveitir herforingjastjórnarinnar köstuðu táragashylkjum inn á Tahrir-torgið í Kaíró í gær og börðust þar við þúsundir mótmælenda þriðja daginn í röð. Átökin hafa kostað að minnsta kosti 24 lífið.

Mótmælendur, flestir ungir aðgerðasinnar, halda til streitu kröfum sínum um að herforingjastjórnin láti völdin í hendur borgaralegrar ríkisstjórnar. Harðir bardagar hafa geisað á torginu, mótmælendur kasta steinum og eldsprengjum að svartklæddri lögreglunni, sem svarar með gúmmíkúlnahríð.

Á sunnudagskvöld gerði lögreglan atlögu að mótmælendum í því skyni að rýma torgið. Það mistókst. Stanslaus straumur slasaðra mótmælenda var inni í bráðabirgðaskýli á gangstéttunum umhverfis torgið þar sem sjálfboðaliðar gerðu að sárum þeirra.

Mótmælin hófust á laugardag, viku fyrir fyrstu þingkosningarnar í landinu eftir að Hosní Múbarak var hrakinn frá völdum í ársbyrjun. Vonir höfðu staðið til að kosningarnar yrðu fyrsta skrefið í átt að því að raunverulegt lýðræði kæmist á í Egyptalandi.

Þess í stað hafa kosningarnar fallið í skuggann af vaxandi reiði í garð herforingjastjórnarinnar, sem mótmælendur saka um að þokast óðum í átt að sams konar einræðistilburðum og einkenndu stjórnarhætti Múbaraks. Þeir óttast jafnframt að herforingjastjórnin muni áfram ríkja yfir þeirri stjórn sem tekur við að kosningunum loknum, líkt og verið hefur með bráðabirgðastjórnina undanfarna mánuði.

Herinn hefur sagt að hann muni ekki draga sig í hlé fyrr en eftir forsetakosningarnar, sem hefur verið gefið í skyn að verði haldnar í lok 2012 eða snemma árs 2013.

Starfsmaður líkhúss í Kaíró staðfesti í gær að minnst 24 hefðu látist í mótmælunum, þar af fimm frá miðnætti á sunnudag. Að sögn lækna við torgið hafa hundruð manna leitað sér aðhlynningar. Einn þeirra kveðst sinna 80 manns á hverri klukkustund. Mest sé um fólk með eymsli í augum og hálsi af völdum táragass og sár í andliti eftir gúmmíkúlur.

Nokkrir hafa misst augu af völdum slíkra skota.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×