Lífið

Bergljót Arnalds fræðir um húsdýrin

Bergljót Arnalds var að gefa út nýja bók um íslensku húsdýrin og býður börnum á hestbak í dag í tilefni þess. Fréttablaðið/gva
Bergljót Arnalds var að gefa út nýja bók um íslensku húsdýrin og býður börnum á hestbak í dag í tilefni þess. Fréttablaðið/gva
„Mig langaði að gera bók sem fræðir börnin um íslensku húsdýrin og sýnir hversu mikilvæg þau eru fyrir samfélagið," segir Bergljót Arnalds, rithöfundur og söngkona, en barnabókin Íslensku húsdýrin og Trölli kom út í vikunni.

Bókin fjallar um lítinn tröllastrák sem villist og þarf hjálp frá íslensku húsdýrunum til að finna leiðina heim. Lesendur fræðast um dýrin, fá að vita hvaða dýr er með tagl og hvaða dýr eru með skott, hver gefur ullina og hvaða dýr gefa okkur mjólkina.

„Hvert dýr hefur sinn karakter og býður sagan upp á að foreldrarnir sýni leikræna tilburði við lesturinn," segir Bergljót hlæjandi en ýmsa leiki og spurningar er að finna aftast í bókinni. Jón Hámundur Marínósson sér um teikningarnar í bókinni. Þetta er níunda bók Bergljótar en hún hefur hlotið viðurkenningar fyrir bækur sínar og tölvuleiki, eins og til dæmis Stafakarlana.

Hugmyndina að þessari bók fékk Bergljót í vor þegar hundur hennar, Draco Silfurskuggi, 14 ára drapst. „Það er mikill söknuður að honum og mér fannst hann eiga skilið heila bók til minningar um sig."

Bergljót kynnir bókina með sérstökum hætti á Barnabókamessu í Iðnó í dag en þar ætlar hún að bjóða börnum á hestbak klukkan 14 og lesa upp ásamt öðrum barnabókahöfundum landsins. - áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.