Erlent

Bandarísk yfirvöld lofa samstarfi

Aung San Suu Kyi ætlar að bjóða fram í næstu kosningum. nordicphotos/AFP
Aung San Suu Kyi ætlar að bjóða fram í næstu kosningum. nordicphotos/AFP
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, fer til Búrma innan skamms að hitta leiðtoga herforingastjórnarinnar í von um að tryggja þar frekari þróun í lýðræðisátt, nú þegar „vottur af framförum“ hefur gert vart við sig, eins og Barack Obama Bandaríkjaforseti orðar það.

Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Búrma, ákvað í gær að taka boði herforingjastjórnarinnar um að skrá flokk sinn, Lýðræðishreyfinguna, sem löggildan stjórnmálaflokk á ný og bjóða fram í næstu kosningum.

Flokkurinn tók ekki þátt í þingkosningum á síðasta ári, vegna þess að hann treysti ekki herforingjastjórninni til að tryggja að kosningarnar yrðu sanngjarnar. Lýðræðishreyfingin vann stórsigur í þingkosningum árið 1990, en herforingjastjórnin tók ekki mark á því og setti Suu Kyi í stofufangelsi. Henni var ekki endanlega sleppt úr stofufangelsinu fyrr en að loknum þingkosningunum á síðasta ári, þegar herforingjastjórnin hafði tryggt sér áframhaldandi völd.

„Ef Búrma heldur áfram á braut lýðræðisumbóta getur landið endurnýjað samskipti sín við Bandaríkin,“ sagði Obama á leiðtogafundi Suðaustur-Asíuríkja, sem haldinn er á Indónesíu.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×