Lífið

Bölvuð leiðindi þegar bíl trommuleikara var stolið

Einar Scheving varð fyrir áfalli þegar bílnum hans var stolið fyrr í vikunni. fréttablaðið/stefán
Einar Scheving varð fyrir áfalli þegar bílnum hans var stolið fyrr í vikunni. fréttablaðið/stefán
„Maður er með sex manna fjölskyldu og trommusett sem þarf að ferja. Þetta eru bölvuð leiðindi," segir trommuleikarinn Einar Scheving.

Bílnum hans, bláum Isuzu Trooper, var stolið aðfaranótt miðvikudags fyrir utan heimili hans í Vesturbæ Reykjavíkur. Inni í bílnum var eitthvað af hljóðfærum og 25 kynningareintök af annarri sólóplötu hans, Land míns föður, sem kom út fyrir skömmu og er tileinkuð föður hans, Árna Scheving, sem lést árið 2007. Platan er óður til Íslands og á henni eru lög Einars við texta nokkurra af þjóðskáldunum, auk vel þekktra íslenskra þjóðlaga. Einar hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin fyrir fyrstu plötu sína, Cycles, sem kom út fyrir fjórum árum og tileinkaði hann einmitt föður sínum verðlaunin.

„Ég bjó í átta ár í Miami, sem var einu sinni álitin mesta glæpaborg Bandaríkjanna. Ég var alveg látinn í friði með alla hluti þar en svo gerist þetta hérna á 300 þúsund manna skeri," segir Einar. Hann hefur áður lent í bíræfnum þjófum hér á landi því brotist var inn í annan bíl sem hann átti fyrir nokkrum árum.

Einar er á meðal færustu trommuleikara landsins og hefur úr mörgum verkefnum að moða. Til að mynda spilar hann á jólatónleikum Björgvins Halldórssonar í Höllinni í desember, og kemur það sér afar illa að hafa bílinn ekki til umráða í jólavertíðinni sem fram undan er.

Lögreglan er að vinna í málinu og vonast Einar til að bíllinn finnist óskemmdur. Bílnúmerið er YF-725 og símanúmer Einars er 897-9506 fyrir þá sem geta aðstoðað hann við að finna farartækið. Vegleg fundarlaun eru í boði.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.