Innlent

Formenn stýri viðræðunum við ESB

Benedikt Jóhannesson
Benedikt Jóhannesson
Sjálfstæðir Evrópumenn ætla að leggja fram málamiðlunartillögu um aðildarviðræður við ESB á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi.

„Við erum að leggja til að menn hætti að þrefa um málið efnislega heldur komi sér saman um málsmeðferð án þess að þurfa að vera sammála um niðurstöðuna,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður Sjálfstæðra Evrópumanna, sem samþykktu tvær tillögur um þetta efni á miðvikudag. „Seinni tillagan fjallar um það flokkurinn stúderi þetta mál og aðra kosti sem þjóðinni kynnu að bjóðast og geri um það skýrslu.“

Meðal þess sem lagt er til er að nefnd formanna stjórnmálaflokkanna á Alþingi ásamt utanríkisráðherra taki við yfirumsjón með viðræðunum og fari með það hlutverk sem sérstök ráðherranefnd hefur haft. Lagt verði til við Evrópusambandið að formlegar samningaviðræður um sjávarútvegsmál, landbúnaðar- og dreifbýlismál og gjaldmiðlasamstarf hefjist ekki fyrr en síðari hluta árs 2013. Viðræðum um aðra kafla verði þó framhaldið með eðlilegum hraða.

Benedikt segist hafa komið tillögunum til forystumanna í flokknum en ekki enn fengið viðbrögð. „Ég held svo sem að mikill hluti flokksmanna vilji taka þessar deilur svolítið út fyrir sviga og einbeita sér að því sem mestu máli skiptir fyrir flokkinn núna; að berjast fyrir því að hér verði tekið upp vitrænt stjórnarfar aftur.“ - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×