Innlent

Stefna flokkanna áréttuð til heimabrúks

Formenn og varaformenn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs voru bjartsýnir þegar saman náðist um áframhaldandi stjórnarsamstarf vorið 2009. Nýlegir landsfundir flokkanna sýna ólíkar áherslur þeirra, þrátt fyrir að þeir nái saman í samstarfi.fréttablaðið/stefán
Formenn og varaformenn Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs voru bjartsýnir þegar saman náðist um áframhaldandi stjórnarsamstarf vorið 2009. Nýlegir landsfundir flokkanna sýna ólíkar áherslur þeirra, þrátt fyrir að þeir nái saman í samstarfi.fréttablaðið/stefán
Landsfundum beggja stjórnarflokkanna er nú lokið. Ljóst er að þrátt fyrir málamiðlun í ríkisstjórnarsamstarfi ber ýmislegt á milli í stefnu flokkanna. Flokksmenn eru þó rólegir yfir mismunandi stefnu samstarfsflokkanna enda virðist samstaða um að ályktanir á landsfundum séu ætlaðar til heimabrúks.

Engum ætti að koma á óvart að himinn og haf skilur Samfylkinguna og Vinstrihreyfinguna – grænt framboð að þegar kemur að afstöðu til Evrópusambandsins. Aðild að sambandinu og upptaka evru er rauður þráður í gegnum stjórnmálaályktun Samfylkingarinnar. „Það er því lykilverkefni að ljúka viðræðum um aðild að Evrópusambandinu, gera skýra áætlun um upptöku evru og leggja málið í dóm þjóðarinnar,“ segir í fyrstu málsgrein ályktunarinnar.

Vinstri græn hafa hins vegar í engu hvikað frá því að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins.

Viðræðum skuli ekki hættVinstri græn samþykktu sérályktun um aðildarviðræður við ESB þar sem þessi stefna er áréttuð. Hún er ítarleg og þar er því hafnað að Ísland afsali sér forræði og yfirstjórn sjávarauðlinda innan íslenskrar efnahagslögsögu. Þá er lögð áhersla á að Ísland haldi samningsrétti vegna deilistofna á Íslandsmiðum; makríls, kolmunna, úthafskarfa, loðnu og norsk-íslensku síldarinnar. Þá megi ekki afsala sér forræði varðandi stuðning við íslenskan landbúnað, svo og um náttúruauðlindir sem fyrirhugað er að lýsa þjóðareign í nýrri stjórnarskrá.

Síðan er klykkt út með yfirlýsingu landsfundarins um að það sé „eitt af forgangsverkefnum VG, flokkseininga og þingflokks, að herða róðurinn við að upplýsa þjóðina um eðli og afleiðingar ESB-aðildar“.

Þetta verður varla öðruvísi skilið en sem stuðningur við stefnu Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem talað hefur mjög um mikilvægi þessa.

Samfylkingarfólk sem Fréttablaðið ræddi við kippti sér þó ekki mikið upp við þessa yfirlýsingu. Stefna Vinstri grænna varðandi Evrópusambandið ætti að vera öllum kunn. Ánægjuefni væri hins vegar að ekki hefði komið fram tillaga á fundinum um að aðildarviðræðum yrði slitið og umsókn dregin til baka.

Því má segja að samþykktir flokkanna rúmist vel innan stjórnarsáttmálans, þar sem kveðið er á um aðildarumsókn en frelsi flokkanna til að framfylgja eigin stefnu að öðru leyti.

StjórnkerfisbreytingarSamfylkingin ályktaði um heildstæða umhverfis- og auðlindastefnu. Þar ber hæst endurskoðun á kvótakerfinu og stofnun auðlindasjóðs, sem fjárfesti arðinn af nýtingu sameiginlegra auðlinda.

Flokkurinn kveður einnig á um nýskipan í orku- og auðlindamálum, sem innleidd verði í umhverfis- og auðlindaráðuneyti og atvinnumálaráðuneyti. Hér er hnykkt á hugmyndum um stjórnkerfisbreytingar, sem verið hafa nokkuð umdeildar innan ríkisstjórnarinnar.

Tvær tillögur komu fram á landsfundi Vinstri grænna varðandi stjórnarráðsbreytingar. Önnur þeirra kvað á um að farið yrði í umræddar breytingar á stjórnarráði, en hin að hætt skyldi við þær. Báðum tillögunum var vísað frá en heimildir Fréttablaðsins herma að það hafi fremur verið á tæknilegum forsendum en málefnalegum.

Ýmsir úr samstarfsflokki Vinstri grænna höfðu orð á því í samtali við Fréttablaðið að sérkennilegt væri að tillaga um stjórnkerfisbreytingar hefði ekki náð fram að ganga, enda væri kveðið á um hana í stjórnarsáttmála.

Eftir stendur samþykkt flokksins frá 2007, sem vísað var til í umræðum á fundinum, sem gengur undir heitinu Græn framtíð.

Þar segir: „Úrelt skipan mála innan Stjórnarráðsins má ekki lengur standa í vegi fyrir nauðsynlegum áherslubreytingum hvað snertir fjármagn og tilfærslu verkefna milli ráðuneyta. Jafnhliða mikilli eflingu umhverfisráðuneytisins þarf að huga að tilfærslu verkefna milli annarra ráðuneyta og hugsanlegri fækkun þeirra, meðal annars með uppbyggingu eins atvinnuvegaráðuneytis.“

Víða samhljómurÝmislegt sameiginlegt er með ályktunum stjórnarflokkanna. Báðir eru hlynntir sjálfstæðu ríki Palestínu, stofnun nýs þjóðgarðs kringum Hofsjökuls og skýru eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindum sínum, svo dæmi séu tekin.

Húsnæðismál eru báðum flokkunum hugleikin og styðja þeir báðir að komið verði upp fjölbreyttari úrræðum á leigumarkaði. Þá vilja flokkarnir að tekið verði á skuldamálum heimilanna. Samfylkingin vill draga úr vægi verðtryggingar og Vinstri græn vilja koma upp sameiginlegum vettvangi til að finna málamiðlun um lánamál heimilanna. Það rímar ágætlega við stefnu samstarfsflokksins um að kanna frekari úrræði fyrir fólk í greiðsluvanda.

Þá eru flokkarnir sammála um mikilvægi sjálfbærrar þróunar og að endurskoða þurfi fiskveiðistjórnunarkerfið, þó að áherslumunur sé á ályktunum flokkanna.

Handhægt heimabrúkÁlyktun Vinstri grænna um heilbrigðismál hefur vakið nokkra athygli. Kosið var á milli tveggja tillagna og sú felld sem gekk út á að ekki yrði skorið meira niður innan málaflokksins. Slík tillaga hefði gengið gegn fjárlagafrumvarpi fjármálaráðherrans Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstri grænna.

Á endanum var samþykkt að heilbrigðiskerfið yrði endurskipulagt í samræmi við stjórnarsáttmálann og að aukið svigrúm í ríkisfjármálum yrði nýtt í þágu heilbrigðisþjónustu. Það er ekki úr takti við stefnu samstarfsflokksins.

Flokksmenn beggja flokka sem Fréttablaðið ræddi við voru sammála um að ekki þyrfti að koma á óvart að ályktanir flokkanna væru ólíkar. Þrátt fyrir ríkisstjórnarsamstarf væri stefna flokkanna að mörgu leyti ólík og það sæist á landsfundum þeirra.

Ríkisstjórnarsamstarf feli í sér málamiðlun en samþykktir landsfunda sýni stefnu flokkanna áður en til þeirrar málamiðlunar komi. Afsláttur á stefnu í ríkisstjórnarsamstarfi eigi ekki að breyta samþykktri stefnu flokkanna, enda muni menn halda í kosningar með sitthvora stefnuna sem byggi á samþykktum landsfunda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×