Innlent

Ákærður fyrir brugg og fíkniefnasölu

Maðurinn er ákærður fyrir að selja bæði fíkniefni og landa.
Maðurinn er ákærður fyrir að selja bæði fíkniefni og landa.
Karlmaður um fimmtugt hefur verið ákærður fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot, kannabisræktun, bruggstarfsemi og sölu dóps og landa.

Manninum er gefið að sök að hafa frá árinu 2006 til 20. apríl 2010 tekið við af ónafngreindum manni samtals einu kílói af amfetamíni og 400 grömmum af hassi. Hluta efnanna seldi hinn ákærði til ónafngreindra manna, að því er segir í ákæru.

Þá ræktaði maðurinn rúmlega tuttugu kannabisplöntur í frystigámi á plani við sláturhús og seldi afurðirnar, sem námu tvö til þrjú hundruð grömmum af kannabis. Enn fremur er manninum gefið að sök að hafa í byrjun síðasta árs bruggað átján lítra af landa í bragga við hesthús og selt.

Tvisvar sinnum var maðurinn tekinn með umtalsvert magn fíkniefna, sem hann geymdi í hesthúsi, á vinnustað hans í frystikistu og loks í ferðatösku. Taska fannst á heimili foreldra hans. Í henni var hass, maríjúana, amfetamín, kókaín, kannabislauf og kannabisfræ.

Ákæruvaldið krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og bruggtæki og ræktunarbúnaður verði gerð upptæk.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×