Innlent

Ríkið samræmir leigugjald á lóðum

Jón Bjarnason
Jón Bjarnason
Landbúnaðarráðuneytið hefur sent um 160 aðilum bréf þar sem tilkynnt er um hækkun á leigu fyrir sumarhúsalóðir og ýmsa aðra smáskika í eigu ríkisins þar sem ekki er greidd sú 54 þúsund króna lágmarksleiga sem ráðuneytið hefur sett.

„Yngri leigusamningar hafa verið með þessari lágmarksleigu en eldri samningarnir hafa ekki í öllum tilvikum verið hækkaðir. Hugmyndin er ekki sú að hækka leiguna heldur að samræma samningana,“ útskýrir Óskar Páll Óskarsson, lögfræðingur í landbúnaðarráðuneytinu.

Dæmi um þessar breytingar eru jörðin Grísatunga og lóð Kleppjárnsreykjaskóla sem Borgarbyggð hefur á leigu. Þar hefur leiguupphæðin verið 21.200 krónur á ári fyrir skólalóðina og 37.000 krónur fyrir Grísatungu sem meðal annars á land að laxveiðiánni Gljúfurá. Í báðum þessum tilvikum vill ráðuneytið nú innheimta 54.034 króna ársleigu og er sveitarstjórnin nú að velta réttmæti þeirrar kröfu fyrir sér.

Óskar segir að landbúnaðarráðuneytið hafi í sumar fengið laganema til aðstoðar við að yfirfara leigusamningana undir handleiðslu starfsfólks jarðadeildarinnar. Við grúsk hans hafi ýmislegt komið á daginn. Til dæmis hafi láðst að rukka einn leigutaka eftir að hann tók við lóð af öðrum á árinu 2008.

Hækkunin á að taka gildi um mitt næsta ár en lóðarleigjendur hafa frest til 1. nóvember til að gera athugasemdir.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×