Innlent

Treystir stöðu Íslands í makrílviðræðum

Tómas H. Heiðar
Tómas H. Heiðar
Niðurstöður rannsóknarleiðangurs sem sýnir að um fjórðungshluti makrílstofnsins í Norðaustur-Atlantshafi hafi haldið sig innan íslensku efnahagslögsögunnar við fæðuöflun um fjögurra mánaða skeið í ár, ættu að treysta samningsstöðu Íslands í viðræðum um skiptingu makrílkvótans.

Þetta segir Tómas H. Heiðar í samtali við Fréttablaðið, en hann er aðalsamningamaður Íslands í þessum viðræðum.

Eins og kom fram í frétt blaðsins í gær mældust um 1.100 þúsund tonn af makríl innan íslenskrar lögsögu, sem er svipað og í fyrra.

Tómas segir að athyglisvert sé að vestan við Ísland var bæði makríllinn sjálfur hvað þéttastur svo og átan, mikilvægasta fæða makrílsins.

„Að mínu mati treysta þessar niðurstöður stöðu Íslands í samningaviðræðunum um makrílveiðar og auka líkur á því að samkomulag geti tekist um raunhæfa skiptingu kvóta í haust milli strandríkjanna fjögurra, Íslands, ESB, Noregs og Færeyja.“

Næsti samningafundur verður haldinn í London dagana 19. til 21. október.

„Brýnt er að ná samkomulagi um makrílveiðarnar sem allra fyrst til að fyrirbyggja frekari ofveiði úr stofninum sem gæti leitt til hruns hans á tiltölulega stuttum tíma,“ bætir Tómas við.

„Umgangast þarf þessa mikilvægu auðlind af ábyrgð og tryggja að veiðarnar séu sjálfbærar. Ljóst er að öll strandríkin, þar með talið Ísland, munu bera meira úr býtum til lengri tíma litið með samkomulagi en án þess.“ - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×