Innlent

Viðurkennir vonda stjórnsýslu í ráðinu

Akureyrarbær Fulltrúar samfélags- og mannréttindaráðs hafa nú ákveðið að endurgreiða miðana á styrktartónleikana, sem kostuðu 2.900 krónur stykkið, til bæjarsjóðs.
Akureyrarbær Fulltrúar samfélags- og mannréttindaráðs hafa nú ákveðið að endurgreiða miðana á styrktartónleikana, sem kostuðu 2.900 krónur stykkið, til bæjarsjóðs.
Fulltrúar í samfélags- og mannréttindaráði Akureyrarbæjar fóru á styrktartónleika í Menningarhúsinu Hofi í boði bæjarsjóðs. Frá þessu er greint í vikublaðinu Akureyri.

Formaður ráðsins viðurkennir að hugmyndin hafi verið vond og megi flokka undir vonda stjórnsýslu. Bærinn keypti tíu miða fyrir fulltrúana og kostaði hver þeirra 2.900 krónur.

Um er að ræða styrktartónleika sem haldnir voru hinn 30. september síðastliðinn og voru kenndir við Sissu, Sigrúnu Mjöll Jóhannesdóttur, unga stúlku sem lést af of stórum skammti fíkniefna í fyrrasumar. Samfélags- og mannréttindaráð styrkti tónleikana með 50.000 króna fjárframlagi og keypti auk þess aðgang fyrir fulltrúana, alla aðal- og varamenn ráðsins.

Hlín Bolladóttir, formaður ráðsins, viðurkennir að hugmyndin hafi ekki verið góð.

„Upphaflega hugsunin var sú að vegna dræmrar miðasölu var ákveðið að kaupa tíu miða fyrir okkur,“ segir hún. „En í raun var hugmyndin vond.“

Hlín segir að á fundi ráðsins hafi kaup á miðunum verið einróma samþykkt. „Það var enginn sem gagnrýndi þetta. Ég er ekki viss um að fólk hafi áttað sig á þessu,“ segir Hlín og bætir við að nú hafi verið ákveðið að greiða miðana til baka til bæjarsjóðs.

„Hugmyndin, sem má vissulega flokka undir vonda stjórnsýslu, hefur verið tekin til baka og ég sem formaður ber ábyrgð á því,“ segir hún.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, brást ókvæða við þegar hann var inntur eftir því hvort kaup sem þessi tíðkuðust innan bæjarins.

„Mér finnst þetta vera fáránleg spurning. Heldur þú virkilega að það sé lenska hjá okkur að styrkja eitthvað málefni og fara svo sjálf á viðburði? Ég svara ekki svona spurningu,“ segir Eiríkur, sem kveðst ekki hafa vitað af málinu fyrr en hann las um það í fjölmiðlum. Hann vildi ekki tjá sig að öðru leyti en því að taka undir orð Hlínar að ákvörðunin hafi verið óheppileg.

Geir Kristinn Aðalsteinsson, oddviti L-listans, segist vita að miðana hafa verið keyptir í góðri trú, en hvernig að því var staðið hafi vissulega verið klaufalegt. Hann hafi ekki frétt af málinu fyrr en eftir tónleikana.

Fulltrúar í samfélags- og mannréttindaráði Akureyrarbæjar eru Hlín Bolladóttir (L), Tryggvi Gunnarsson (L), Heimir Haraldsson (L), Anna Hildur Guðmundsdóttir (A), Guðlaug Kristinsdóttir (B), Brynjar Davíðsson (L), Inda Björk Gunnarsdóttir (L), Helga Eymundsdóttir (L), Jóhann Gunnar Sigmarsson (A) og Regína Helgadóttir (B).sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×