Innlent

Fordæmir vinnubrögð norsks rithöfundar

Fordæmir vinnubrögðin Guðmundur Gunnarsson er ósáttur við skáldsögu um dóttur sína.
Fordæmir vinnubrögðin Guðmundur Gunnarsson er ósáttur við skáldsögu um dóttur sína.
„Það er ekki rétt sem hún segir að Björk hafi vitað af bókinni,“ segir Guðmundur Gunnarsson, faðir Bjarkar Guðmundsdóttur og fyrrverandi formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, um bókina Bli Björk eftir norska rithöfundinn Mette Karlsvik.

Karlsvik sagði í viðtali við Fréttablaðið í gær að hún drægi það í efa að Björk hefði ekki vitað af útgáfu bókarinnar. Guðmundur segir að hann hafi hitt Karlsvik nokkrum sinnum og talað við hana. „Hún kom hingað til lands og var að fjalla um afleiðingar hrunsins og baráttuna um náttúruna. Það var undir þeim formerkjum sem við spjölluðum saman. Í restina sagði hún mér að hún væri að byrja að skrifa skáldsögu og að ég væri í einu hlutverki í þeirri sögu,“ segir Guðmundur, en Karlsvik bauð honum að lesa yfir handritið á bókinni áður en hún fór í prentun, sem hann neitaði.

„Ég vildi ekki hafa nein afskipti af því og get ekki skipt mér af því hvernig rithöfundar finna karaktera í skáldsögur sínar,“ segir Guðmundur og bætir við að ef hann hefði lesið bókina yfir hefði hann verið orðinn ábyrgur fyrir innihaldinu.

„Á engu stigi málsins kom fram nafnið Björk. Í einum póstinum frá Karlsvik sagði hún reyndar að það væri gaman að koma til Reykjavíkur því hún væri svo hrifin af Björk.“

Guðmundur sendi Mette Karlsvik bréf í gær þar sem hann segist ekki sáttur við vinnubrögð hennar. „Ég er ekki að fordæma bókina sem slíka en ég fordæmi vinnubrögðin. Ég hef grun um að hún sé að búa til deilu við okkur Björk til að fá auglýsingu fyrir bókina, en því markmiði er þá náð.“

Mette Karlsvik sendi bæði Björk og Guðmundi afsökunarbeiðni í gær þar sem hún biðst velvirðingar á því að hafa haldið því fram að Björk vissi um bókina og að hún hafi ekki verið nógu skýr um verkefnið í samskiptum sínum við Guðmund og James, aðstoðarmann Bjarkar.- áp



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×