Innlent

Spurning hvort áhuginn á löggulífi sé í genunum

Hlynur Steinn Þorvaldsson, Þorvaldur Sigmarsson og Hlynur Snorrason með Baltasar Goða Hafberg á handleggnum.
Hlynur Steinn Þorvaldsson, Þorvaldur Sigmarsson og Hlynur Snorrason með Baltasar Goða Hafberg á handleggnum. Fréttablaðið/Vilhelm
Við erum allir starfandi lögreglumenn, nema sá litli,“ segir Hlynur Steinn Þorvaldsson og á þar við föður sinn Þorvald Sigmarsson, tengdaföður sinn Hlyn Snorrason og soninn Baltasar Goða Hafberg. „Við pabbi erum í útkallsdeildinni og óeirðadeildinni á höfuðborgarsvæðinu en tengdapabbi sér um rannsókn allra mála á Vestfjarðakjálkanum.“

Allir eru þeir löggæslumenn mikið á ferðinni í sínu starfi, að sögn Hlyns Steins. Tengdafaðir hans ferðast um sitt umdæmi og suður til Reykjavíkur og þeir feðgar þjóta af stað þegar eitthvað alvarlegt hendir á höfuðborgarsvæðinu, ýmist með blikkljósin á eða ekki. Þeir mega reyndar ekki vera saman á bíl, þótt séu þeir að vinna á sama tíma.

Hlynur Steinn byrjaði í löggunni árið 2004, faðir hans 1981, sama ár og sonur hans fæddist, og tengdafaðirinn 1983. „Það er hellings reynsla sem býr í þessari fjölskyldu,“ segir Hlynur Steinn og bætir við hlæjandi að konan hans hafi verið í lögreglunni í tvö ár en fundið að það væri betra líf annars staðar.

En er verið að þjálfa þann stutta upp í löggustarfið líka?

„Ég segi það nú ekki en það er spurning hvort áhuginn sé í genunum. Það er að minnsta kosti ótrúlega mikið um feðga og frændur í löggunni,“ svarar hann.

Hlynur Steinn segir starfið viðburðaríkt, sem geti verið bæði kostur og galli, en telur þá félaga ekki vera spennufíkla.

„Ég held þetta sé frekar einhver hugsjón. Spennufíklar detta mjög fljótlega út,“ segir hann og er fljótur til svars þegar hann er spurður hvað sé skemmtilegast við vinnuna. „Þegar maður hjálpar einhverjum og starfið skiptir einhverjum sköpum. Það er alltaf ljúft.“

gun@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×