Innlent

Auðveldara að sigla Baldri til Eyja

Skipið hefur verið notað í stað Herjólfs undanfarið. Skip eins og Baldur myndi henta vel til siglinga í Landeyjahöfn. fréttablaðið/pjetur
Skipið hefur verið notað í stað Herjólfs undanfarið. Skip eins og Baldur myndi henta vel til siglinga í Landeyjahöfn. fréttablaðið/pjetur
Ferjan Baldur myndi henta vel til áframhaldandi siglinga í Landeyjahöfn. Ferjan hefur undanfarinn mánuð siglt til Vestmannaeyja.

„Skipið hefur reynst mjög vel og uppfyllt allar þær væntingar og viðmiðunarmörk sem Siglingastofnun setti á sínum tíma um ölduhæð,“ segir Gísli Viggósson, forstöðumaður rannsókna- og þróunarsviðs Siglingastofnunar.

Baldur hefur siglt í 3,6 metra ölduhæð en Herjólfur siglir í allt að 2,5 metra ölduhæð. „Þar að auki ristir Baldur ekki nema 2,7 metra en Herjólfur 4,3,“ segir Gísli. Því þurfi mun minna viðhald við Landeyjahöfn þegar grunnristara skip sigli þangað.

Sökum þess að Herjólfur getur ekki siglt í meira en 2,5 metra ölduhæð má gera ráð fyrir að frátafir yfir vetrartímann séu tuttugu til fjörutíu prósent, aðeins vegna of mikillar ölduhæðar. Þá yrðu væntanlega einhverjar tafir vegna dýpkunar. Miklu minni tafir yrðu af notkun Baldurs.

Herjólfur er nýkominn úr slipp og þarf á næstunni að sigla milli Vestmannaeyja og Þorlákshafnar, þar sem ekki er nægilegt dýpi fyrir skipið í Landeyjahöfn. - þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×