Erlent

Eiginkonan enn í einangrun

Kínverskur lögreglumaður les blað meðan hann bíður fyrir utan íbúð eiginkonu andófsmannsins. fréttablaðið/AP
Kínverskur lögreglumaður les blað meðan hann bíður fyrir utan íbúð eiginkonu andófsmannsins. fréttablaðið/AP
Kínastjórn sýnir enga eftirgjöf, nærri ári eftir að andófsmaðurinn Liu Xiaobo fékk friðarverðlaun Nóbels, hvorki gagnvart norskum stjórnvöldum né eiginkonu verðlaunahafans.

„Það hafa ekki orðið miklar breytingar,“ sagði Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, í heimsókn sinni hér á landi í síðustu viku þegar hann var spurður um stirðleikann í samskiptum Noregs og Kína sem ríkt hefur undanfarið ár.

„Mér sýnist að Kínverjar hafi ákveðið að draga verulega úr stjórnmálasambandi við Noreg. Við vonumst til að finna einhverjar leiðir til að halda samskiptunum áfram og taka upp aftur þá samvinnu sem áður var á milli okkar. En við verðum bara að taka okkur þann tíma sem þarf í það.“

Liu Xia, eiginkona andófsmannsins, býr enn í íbúð sinni í Peking þar sem henni er haldið í einangrun og hefur lítil samskipti við umheiminn. Lögreglan hefur eftirlit með henni, hún fær hvorki aðgang að síma né interneti og aðeins fáeinir ættingjar fá að heimsækja hana nema. Nóbelsverðlaunahafinn sjálfur afplánar ellefu ára fangelsisdóm fyrir baráttu sína fyrir lýðræði í Kína.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×