Erlent

Segir gömlu leiðina ekki lengur færa

Mahmoud Abbas í ræðustól á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, stuttu áður en Benjamín Netanjahú steig í sama ræðustól.nordicphotos/AFP
Mahmoud Abbas í ræðustól á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, stuttu áður en Benjamín Netanjahú steig í sama ræðustól.nordicphotos/AFP
Palestínumenn fögnuðu ákaft þegar Mahmoud Abbas hafði lagt fram umsókn um fulla aðild Palestínuríkis að Sameinuðu þjóðunum. Fjöldi fólks hélt út á götur á Vesturbakkanum til að fagna ræðu forseta Palestínustjórnar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Fögnuður ríkti einnig víða í arabaríkjunum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Abbas sagði stund sannleikans vera runna upp, nú þegar hann hefði lagt umsóknina fram: „Þjóð okkar vill heyra svar heimsins.“

Hann rökstuddi mál sitt með því að áratugalangar tilraunir til að semja um frið við Ísrael hafi ávallt siglt í strand. Sú leið hafi reynst ófær og nú verði að láta reyna á vilja Sameinuðu þjóðanna.

Abbas hvatti öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja aðild Palestínu. Hann hvatti einnig þau ríki, sem enn hafa ekki gert það, að viðurkenna sjálfstæði Palestínuríkis.

Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, tók hins vegar undir óskir Abbas um frið og sagðist vilja hefja samningaviðræður við Palestínumenn án tafar.

„Ég kom ekki hingað til að fá lófatak,“ sagði Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, þegar hann ávarpaði þingið stuttu eftir að Abbas hafði talað. „Ég komhingað til að segja sannleikann, og sannleikurinn er sá að Ísrael vill frið.“

Hann sagði Ísrael fyrst og fremst hafa áhyggjur af öryggi sínu, en Palestínumenn vilji ekki ræða það mál. Ísraelar vilji til dæmis hafa herlið áfram í nýju ríki Palestínu en Abbas taki það ekki í mál.

„Palestínumenn vilja fá ríki sitt án friðar,“ sagði Netanjahú. „Þeir eiga fyrst að semja við okkur um frið, þá geta þeir fengið ríkið sitt.“

Abbas sagði hins vegar að friðarviðræður hafi jafnharðan strandað á þeirri stefnu Ísraels að styðja landtökumenn til þess að halda áfram framkvæmdum á herteknu svæðunum.

Bandaríkjamenn hafa ítrekað sagst ætla að beita neitunarvaldi sínu í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar umsókn um aðild Palestínu að samtökunum verður rædd þar.

Erindi Palestínumanna verður engu að síður sent áfram til allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, þar sem nægur meirihluti virðist vera fyrir því að veita Palestínu áheyrnaraðild, sem gefur Palestínumönnum mun meira vægi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna en þeir hafa haft.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×