Innlent

Segir tollalög andstæð stjórnarskránni

Ákvarðanir landbúnaðarráðherra um tolla á innfluttar landbúnaðarvörur byggja á lögum sem standast ekki stjórnarskrá, segir umboðsmaður Alþingis.
Ákvarðanir landbúnaðarráðherra um tolla á innfluttar landbúnaðarvörur byggja á lögum sem standast ekki stjórnarskrá, segir umboðsmaður Alþingis. Mynd/Anton
Umboðsmaður Alþingis segir heimildir í tollalögum til handa landbúnaðarráðherra til að ákvarða tolla á innfluttar landbúnaðarvörur ekki vera í samræmi við ákvæði stjórnarskrárinnar um skattlagningarheimildir.

Umboðsmaður hóf skoðun á málinu eftir kvörtun frá Samtökum verslunar og þjónustu vegna þriggja reglugerða sem landbúnaðarráðuneytið setti í maí í fyrra. Þær taka til tollkvóta vegna innflutnings á nautgripa-, svína- og alifuglakjöti, á smjöri og ostum og á unnum kjötvörum og giltu tímabilið 1. júlí 2010 til 30. júní 2011, allar dagsettar 12. maí 2010. Samtökin gerðu athugasemd við að lagðir væru tollar á tollverð frekar en vörumagn vara sem fluttar væru inn. Meðal annars væri vafasamt að þetta stæðist þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslands.

Landbúnaðarráðuneytið svaraði því meðal annars til að Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra hafi við ákvarðanir sínar haft í huga fæðuöryggi, atvinnumál og erfiða stöðu í gjaldeyrismálum.

Umboðsmaður segir að í ljósi niðurstöðu sinnar um að hin tilteknu ákvæði í tollalögum standist ekki stjórnarskrá hafi hann ekki tilefni til að fjalla um þau atriði í kvörtun Samtaka verslunar og þjónustu sem lúta að meðferð ráðherrans á valdheimildum sem lögin gefa honum. Hins vegar er því beint til landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra að bregðast við því að lögin samræmist ekki stjórnarskránni.

- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×