Lífið

Ný sirkussýning leitar til raunveruleikaþáttanna

Katla Þórarinsdóttir og félagar hennar í Sirkus Íslands setja upp sýninguna Ö-Faktor.
Katla Þórarinsdóttir og félagar hennar í Sirkus Íslands setja upp sýninguna Ö-Faktor. Mynd/Anton
„Það er svo mikið lýðræði innan hópsins að við eigum öll heiðurinn að hugmyndinni á bak við sýninguna,“ segir Katla Þórarinsdóttir, einn aðstandenda Sirkus Íslands sem frumsýna nýja fjölskyldusýningu í Tjarnarbíói þann 1.júlí.

Sýningin nefnist Ö-Faktor og er fyrirmyndin hæfileikakeppnir í sjónvarpi á borð við X-Faktor. „Þetta eru þættir sem við gerum öll grín að en horfum alltaf á. Þeir hafa eitthvað aðdráttarafl á áhorfendur,“ segir Katla en sýningin fer fram alveg eins og sjónvarpsþættirnir vinsælu með dómurum og kynni.

„Við erum með flestar þær staðalímyndir sem birtast alla jafna í raunveruleikasjónvarpi. Leiðinlega og fúla dómarann, athyglissjúka kynninn, einstæðu móðurina og blinda dansarann,“ segir Katla og bætir við að öll atriðin tengjast sirkuslistum.

Sýningin Ö-Faktor er þriðja sýningin sem Sirkus Íslands setur upp en í fyrra voru þau með sýninguna Sirkus Sóley. „Ö-Faktor er fjölskyldusýning fyrir börn jafnt og foreldra enda er ekkert leiðinlegra en að fara á barnasýningu sem maður sjálfur sofnar á,“ segir Katla og lofar hárbeittum húmor í sýningunni.

20 manns eru virkir meðlimir í listahópnum Sirkus Íslands. „Fólk verður alltaf jafn hissa að heyra að það sé sirkus á Íslandi. En við erum mjög virk og reynum að setja upp eina sýningu á ári.“

-áp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.