Innlent

Sífellt fleiri reyna að smygla læknadópi

Þeir sem reyna að smygla einhverju, sem bannað er innan veggja fangelsa, inn í þau, fá sekt sem nemur hundruðum þúsunda eða skilorðsbundið fangelsi.
Þeir sem reyna að smygla einhverju, sem bannað er innan veggja fangelsa, inn í þau, fá sekt sem nemur hundruðum þúsunda eða skilorðsbundið fangelsi.
Smygl á fíkniefnum til fanga á Litla-Hrauni hefur gerbreyst á síðustu tveimur árum. Nú er mun meira um að fangaverðir stöðvi sendingar af lyfjum á borð við rítalín og contalgín en ólöglegum fíkniefnum.

 

Elís Kjartansson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Selfossi, segir smygltilraunirnar með margvíslegum hætti. Lyfin séu falin í DVD-spilurum sem reynt sé að senda inn í fangelsið, fólk mæti í heimsókn með efnin innvortis eða reynt sé að koma þeim inn með öðrum hætti.  „Þarna hjálpar fíkniefnahundurinn ekki, hann þekkir ekki lyktina af lyfjum eins og contalgíni og fleiri slíkum sem fíklar nota,“ segir Elís .

 

„Það er mikill munur á alvarleika þeirra brota samkvæmt hegningarlögum að vera með tíu rítalíntöflur í vasanum í ólöglegum tilgangi eða reyna að smygla þeim inn í fangelsi,“ útskýrir Elís.

 

„Að hafa slíkar töflur í sinni vörslu í ólögmætum tilgangi er brot á lyfjalögum, sem ekki eru svo þung viðurlög við. En að reyna að koma slíkum töflum, eða öðru sem bannað er í fangelsunum, þar inn er brot á lögum um fullnustu og refsingu fanga.“

Í lögunum segir að sá sem smygli eða reyni að smygla munum eða efnum til fanga skuli sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum nema þyngri refsing liggi við brotinu samkvæmt öðrum lögum. Elís segir að fólk sem reyni að smygla einhverju inn í fangelsin hafi yfirleitt fengið skilorðsbundna fangelsisdóma eða hundruð þúsunda í sekt. „Ef fólk er á skilorði fyrir fer það beint í grjótið. Fólk sem lætur plata sig til að reyna að smygla læknadópi, fíkniefnum, síma eða þjöl, svo dæmi séu nefnd, inn í fangelsi áttar sig ekki á alvarleika brotsins fyrr en hann dynur á þeim.“

 

Í umfjöllun Kastljóss undanfarna daga hefur komið fram að mikil aukning hefur orðið í framboði læknadóps á götunni.

- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×