Lífið

María Ellingsen og Eivör fóru í sjósund í Færeyjum

María Ellingsen og félagar skelltu sér í sjósund í Færeyjum og höfðu gaman af.
María Ellingsen og félagar skelltu sér í sjósund í Færeyjum og höfðu gaman af.
María Ellingsen, Eivör Pálsdóttir og félagar skelltu sér í sjósund í Færeyjum eftir sýningu á dansverkinu Ferðalag Fönixins.

„Þetta var ótrúlega gaman," segir leikkonan María Ellingsen, sem er nýkomin heim frá Færeyjum þar sem hún, ásamt félögum sínum, sýndi dansleikhúsverkið Ferðalag Fönixins.

Auk Maríu eru í hópnum söngkonan Eivör Pálsdóttir, Reijo Kela dansari, Snorri Hilmarsson leikmyndahönnuður, Filippía Elísdóttir búningahönnuður og Björn B. Guðmundsson ljósahönnuður. Blanda þau tónlist, dans, leiklist og myndlist saman í eina heild. „Þetta var í annað skiptið sem við Eivör förum með sýningu til Færeyja," segir María en þessi sami hópur sýndi þar Úlfhamssögu fyrir nokkrum árum. „Það er ekki á hverjum degi sem Eivör er í leikriti. Hún var rosa spennt og vildi hafa þetta alveg hundrað prósent og vakti langt fram á nótt við að fínpússa öll smáatriði," segir hún.

Viðtökurnar voru hreint út sagt frábærar. „Leikhús- og danshefð er ekki mikil í Færeyjum en það var algjörlega uppselt. Þetta var 400 manna salur og það var alveg troðið, sem er alveg magnað því þetta er tilraunakennt stykki og óvenjulegt. Við fengum rosalega mikil viðbrögð. Fólk ætlaði aldrei að fara. Það staldraði við og vildi tala um þetta. Þetta snerti fólk mjög djúpt."

Daginn eftir bauð Eivör og umboðskona hennar, Sigvör, hópnum heim í þorpið þeirra, Götu, og drifu alla í sjósund og svo var slegið upp veislu með þurrkuðum hval, skerpikjöti og harðfiski. Eivör kvaddi hópinn með því að sýna þeim kirkjuna í Götu og söng gömlu sálmana sem hún söng þar sem barn með afa sínum. „Það var mögnuð stund. Þetta var mjög persónulegt augnablik þegar hún söng fyrir okkur í rökkrinu."

Næst var ferðinni heitið til Finnlands án Eivarar þar sem verkið var sýnt utandyra. „Það var spennandi að hafa lyng og mosa sem undirlag. En það var þónokkuð kalt og maður var svolítið rispaður og marinn eftir þetta," segir María.

Ferðalag Fönixins verður sýnt aftur í Borgarleikhúsinu í vetur og hyggst hópurinn síðan ferðast víðar með verkið.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.