Mikill áhugi er á Eldfjalli, kvikmynd Rúnars Rúnarssonar, eftir velgengni hennar á kvikmyndahátíðum undanfarið. Útsendarar á vegum bandaríska stórleikarans Jack Nicholson hafa óskað eftir því að fá eintak af myndinni í því augnamiði að sýna honum myndina og jafnvel endurgera. Óformlegar viðræður hafa átt sér stað milli starfsliðs stórstjörnunnar og framleiðslufyrirtækis myndarinnar, ZikZak.
„Þeir er búnir að setja sig í samband og það er eintak á leiðinni. Meira er ekki hægt að segja. En þetta er ekkert fjarstæðukennd hugmynd," segir Þórir Snær Sigurjónsson, framleiðandi Eldfjalls í samtali við Fréttablaðið.
Nicholson er í miklu uppáhaldi hjá Þóri, eins og hjá flestum kvikmyndagerðarmönnum, og hann segir nánast bókað að Nicholson muni fá sinn fjórða Óskar ef hann ræðst í endurgerð kvikmyndarinnar. „En þetta er náttúrulega allt á viðræðustigi og yrði bara gaman ef af yrði. Hann er auðvitað bara með lið á sínum snærum sem sér um að finna handa honum sniðug verkefni."
Kvikmyndin Eldfjall hefur verið á mikilli sigurbraut að undanförnu og hreppt aðalverðlaunin á hverri hátíðinni á fætur annarri. Nú síðast í Denver þar sem hún hlaut hin eftirsóknarverðu Krzysztof Kieslowski-verðlaun og lagði meðal annars nýjustu kvikmynd George Clooney, The Descendants eftir Alexander Payne. En Clooney hefur verið orðaður við Óskarinn fyrir frammistöðu sína í myndinni.
„Okkur hefur gengið vel í Norður-Ameríku, og hægt og bítandi erum við að komast á landakortið þar," segir Rúnar í samtali við Fréttablaðið og vildi sem minnst tjá sig um málið en staðfesti þó að það væru þreifingar í gangi fyrir vestan, þetta væri bitastætt hlutverk fyrir mann á sjötugsaldri og af þeim væri ekki nóg.
Eldfjall hefur vakið mikla athygli á Rúnari og fjölmargir aðilar hafa sýnt leikstjóranum áhuga. Fram undan er nú kapphlaupið um tilnefningu til Óskarsverðlauna en Eldfjall er framlag Íslands í þá baráttu. „Þetta er dýrt sport og þær eru stjarnfræðilegar upphæðirnar sem mörg af okkar nágrannalöndum eru að eyða í þetta," segir leikstjórinn.
freyrgigja@frettabladid.is
Jack Nicholson sýnir Eldfjalli Rúnars áhuga
