Innlent

Stytting Vestfjarðavegar með tveimur stórbrúm eitt stærsta verkefnið

Vegagerðin stefnir að því að bjóða út fyrir áramót þriggja milljarða króna verkefni á sunnanverðum Vestfjörðum sem felur í sér þverun tveggja fjarða og átta kílómetra styttingu Vestfjarðavegar.

Vegarkaflinn er ekki um hinn umdeilda Teigsskóg heldur vestar á kjálkanum um Kjálkafjörð og Kerlingarfjörð. Þarna liggur nú 24 kílómetra langur malarvegur um kjarrigróna eyðifirði, með kröppum beygjum og blindhæðum og með fjórum einbreiðum brúm.

Vegagerðin vill fá í staðinn beinan og breiðan malbiksveg og stytta leiðina um átta kílómetra með því að fara þvert yfir bæði Kjálkafjörð og Mjóafjörð, inn af Kerlingarfirði, en Vegagerðin segir mjög snjóþungt í botni fjarðanna. Brýrnar yfir firðina verða hafðar stórar, 160 og 116 metra langar, til að tryggja eðlilegt vatnaskipti milli flóðs og fjöru.

Vegagerðin segir að með þverum skapist betra næði í fjarðabotnunum og auknir útivistarmöguleikar. Jafnframt skapist betra næði við fimm arnarvarpsstaði.

Ráðamenn Reykhólahrepps sjá kosti við að losna við veginn úr botnunum. Oddvitinn, Andrea Björnsdóttir, segir að þarna verði gríðarlega friðsælt og virkilega gaman fyrir ferðafólk að skoða þessa paradís.

Ekki er vitað til þess að samtök né landeigendur leggist gegn framkvæmdinni en búist er við að Skipulagsstofnun gefi út álit sitt á umhverfisáhrifum um miðjan nóvember. Vegagerðin vonast til að bjóða út verkið fyrir áramót og að því verði lokið árið 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×