Innlent

Jón Bjarna segist njóta fulls trausts

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist njóta fulls trausts Steingríms J. Sigfússonar til að vera áfram í ríkisstjórninni. Þá segist hann gera ráð fyrir að njóta trausts forsætisráðherra þó hún hafi gagnrýnt störf hans. 

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í kvöldfréttum okkar í gær að Jón Bjarnason hefði stundað óboðleg vinnubrögð með því að vinna að nýju frumvarpi til laga um stjórn fiskveiða án vitneskju ríkisstjórnarinnar.

„Þetta eru auðvitað óboðleg og ámælisverð vinnubrögð hjá ráðherranum og þessi frumvarpsdrög eru alfarið á hans ábyrgð. Hann hefur hundsað það núna á þriðja mánuð að nokkur stjórnarliði fái að koma nálægt þessari vinnu,“ sagði forsætisráðherra.

Þingflokkur Vinstri grænna fundar klukkan eitt í dag og Jón Bjarnason mun þurfa að gefa þar skýringar á framgöngu sinni, en hann sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann sagði frumvarpið sem birtist á vef ráðuneytis hans á laugardag aðeins vinnuskjöl sem gætu orðið umræðugrundvöllur. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að það ráðist af svörum ráðherrans á þingflokksfundinum í dag hvort honum verði áram sætt í ríkisstjórninni.

Jón Bjarnason segist enn njóta trausts Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra. „Ég geri fastlega ráð fyrir að njóta trausts hennar þó hún hafi gagnrýnt mín vinnubrögð. Það hefur heyrst um ýmsa aðra ráðherra," segir Jón.

Hann segir að breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu verði til umræðu á þingflokksfundi Vinstri grænna á eftir. „Við ræðum þau mál eins og öll önnur og staða ESB-mála verður sjálfsagt líka rædd, en þau mál eru kannski stærri um þessar mundir."

Nýtur þú enn trausts Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra og formanns VG? „Já, drottinn minn dýri, ég er sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra,“ segir Jón, en hann segist hafa rætt við Steingrím í gærkvöldi og að hann njóti fulls trausts hans til að gegna áfram ráðherraembætti. thorbjorn@stod2.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×