Innlent

Jónína óttaðist um líf Gunnars í Krossinum

Lögreglan hefur hætt rannsókn á meintum kynferðisbrotum Gunnars Þorsteinssonar, fyrrverandi forstöðumanns Krossins. Gunnar segist málalokunum fegin, hann geti nú hafið nýtt líf. Eiginkona Gunnars óttaðist um líf hans á tímabili.

Í bréfi frá lögreglunni í Reykjavík, sem Gunnari barst um helgina, er sagt að rannsókn málsins hafi verið hætt. Vísað er í lagagrein sem kveður á um að hætta skuli rannsókn hafi kæra ekki verið á rökum reist eða brot hafi verið smávægilegt.

„Þetta merkir ný byrjun, nýtt upphaf, nýtt líf. Ég fyllist þakklæti guði mínum, vinum og fjölskyldu að hafa staðið með mér allan þennan tíma. En þetta þýðir nýtt upphaf," segir Gunnar sem hefur alltaf haldið fram sakleysi sínu í málinu.

„Ég er ekki fullkominn maður en þessar ásakanir á ég ekki og hef vísað þeim frá alla tíð og nú er það lögformlega staðfest."

Mál Gunnars hlaut gríðarlega fjölmiðlaumfjöllun á síðasta ári. Hann steig til hliðar sem forstöðumaður Krossins.

Jónína Benediktsdóttir, eiginkona hans, segir ásakanirnar hafa hvílt þungt á fjölskyldunni.

„Ég er bara þakklát að maðurinn minn sé á lífi, það var ekki sjálfgefið á tímabili því þetta hefur haft gríðarleg áhrif á hann."

Gunnar segir ábyrgð fólks og fjölmiðla mikila í þessu máli. Fjölmiðlafárið kringum mál hans sé umhugsunarvert.

„Það er hægt að nálgast hvern sem er með þessum hætti ef þetta á að vera aðferðarfræðin í íslensku samfélagi. Það má ekki verða. Að menn gangi fram með þessum hætti. Að hver sem er, geti farið inn á hvaða fjölmiðil sem er og sagt hvað sem er um náungann. Það má ekki vera þannig."

Viðtalið við Gunnar Þorsteinsson og Jónínu Benediktsdóttir má sjá í heild sinni hér á Vísi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×