Á annað hundrað björgunarsveitarmenn Landsbjargar leita nú að erlendum ferðamani á Fimmvörðuhálsi og á Mýrdalsjökli, eftir að hann hringdi í neyðarlínuna um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi.
Hann sagðist vera orðinn kaldur og hrakinn og auk þess villtur, og bað um hjálp. Síðan rofnaði sambandið við hann.
Auk björgunarmanna, sem þegar hófu leit, flaug þyrla Landhelgisgæslunnar austur, en skyggni var afleitt þannig að hún varð frá að hverfa, en flaug aftur til leitar klukkan sex í morgun.
Leitin beinist nú að sunnanverðum Mýrdalsjökli, en þaðan er talið að símtalið hafi borist, og er nú verið að senda leitarmönnum nokkra snjóbíla, þar sem jeppar koma ekki að gangi á svæðinu. Þá taka fimm leitarhundar þátt í leitinni.
Kalsa veður var á svæðinu í gærkvöldi og í nótt, en það hefur nú skánað. Hinsvegar er spáð að það versni aftur til muna um hádegisbil, þannig að mikið kapp er nú lagt á að finna manninn sem allra fyrst. Talið er að hann sé sænskur, en ekki er vitað um nánari deili á honum.
Fjölmenn leit að ferðamanni á Fimmvörðuhálsi
