Enski boltinn

Mancini: Ég á alla sökina á tapinu á móti Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Mancini og Kenny Dalglish.
Roberto Mancini og Kenny Dalglish. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roberto Mancini, stjóri Manchester City, kennir sjálfum sér um tapið á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gærkvöldi en Liverpool vann öruggan 3-0 sigur þar sem öll mörkin komu á fyrstu 35 mínútum leiksins.

„Ég er mjög vonsvikinn með sjálfan mig því ég gerði mistök. Þetta var mér að kenna en ekki leikmönnunum," sagði Roberto Mancini eftir leikinn. Manchester City er í 4. sæti deildarinnar en hefur enn ekki unnið útisigur á árinu 2011.

„Leikmennirnir gáfu hundrað prósent í þennan leik. Það er því mikilvægt að ég geri mér grein fyrir því að þetta tap er mér að kenna. Ég vil samt ekki fara nánar út í það," sagði Mancini.

Mancini skipti  Mario Balotelli inn á fyrir Carlos Tevez þegar Argentínumaðurinn meiddist í upphafi leiks en tók síðan Balotelli útaf í seinni hálfleik. Mancini gaf það í skyn að Balotelli hafi ekki skilaði miklu til liðsins.

„Liverpool spilaði frábærlega fyrstu 20 mínúturnar, við gáfum þeim stórt svæði til að vinna með og þeir voru mjög grimmir að nýta sér það. Við byrjuðum að spila eftir 20 mínútur en það var bara alltof seint. Þetta er allt mín sök og ég á erfitt með að kyngja því," sagði Mancini en City-liðið mætti á Anfield aðeins klukkutíma fyrir leikinn.

„Við undirbjuggum okkur ekki nógu vel fyrir þennan leik og hluti af því var að mæta of seint á leikstað. Við héldum kannski að við þyrftum ekki að spila af hundrað prósent krafti til þess að vinna en fótboltinn er ekki þannig. Ég er samt viss um að við komust í Meistaradeildina og í úrslitaleik enska bikarsins," sagði Mancini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×