Innlent

Sjö ára drengur fékk þunga girðingu yfir sig á skólalóð

Börn að leik. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint.
Börn að leik. Athugið að myndin tengist ekki fréttinni beint. Mynd/ Vilhelm Gunnarsson
Sjö ára drengur fékk þunga girðingu, sem verktakar höfðu reist, yfir sig í gærmorgun á skólalóð Norðlingaskóla. Faðir drengsins sendi íbúasamtökum Norðlingaholts bréf þar sem hann lýsti atvikinu og samtökin birtu á heimasíðu sinni.

Þar lýsir faðirinn hvernig hann kom í skólann til drengsins með húfu sem sonur hans hafði gleymt. Þá sér hann drenginn vera að halda girðingunni uppi eftir að hún hafði fallið niður á hann, en hún afmarkar vinnusvæði. Með honum eru tveir aðrir drengir sem reyndu að aðstoða hann.

Faðir drengsins kallaði á hann. Strákurinn sleppti þá girðingunni og fékk við það rör, sem stóð efst í girðingunni, í hnakkann. Samkvæmt bréfi föðurins, var höggið þokkalegt, en drengurinn slasaðist þó ekki að ráði.

Piltarnir höfðu verið að leika sér í girðingunni, sem var ástæðan fyrir því að hún féll upphaflega. Faðirinn segir það engu skipta, börn séu börn, og það eigi að tryggja öryggi þeirra.

Íbúasamtök Norðlingaholts skora á Reykjavíkurborg að bregðast við hið allra fyrsta og tryggja að börn og starfsmenn Norðlingaskóla séu ekki í hættu á að slasast.

Hægt er að nálgast bréfið og tilkynningu samtakanna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×