Innlent

Prófessor á slóðir strippstaða og tugthúsmeistarans

Helgi Gunnlaugsson mun leiða gönguna, sem hefst klukkan tvö á morgun.
Helgi Gunnlaugsson mun leiða gönguna, sem hefst klukkan tvö á morgun.
Helgi Gunnlaugsson, prófessor við Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands, mun fræða áhugasama um stípibúllur, bjórbann, tugthúsmeistarann og fyrsta dómsalinn á morgun.

Þó það verði ekki farið á strippbúllur, enda ólöglega hér á landi, þá mun prófessorinn góði leiða áhugasama inn í fyrsta dómsalinn auk þess sem hann mun rekja sögu ungrar kráarmenningar Íslendinga.

„Ég mun segja frá aðdraganda þess að fyrsta fangelsið var reist hér á síðari hluta 18. aldar og frá því hverjir voru í fangelsi, hvers vegna og ástandi fangelsanna,“ segir Helgi og bætir við að hann muni einnig segja frá ástandi og aðbúnaði fanganna.

„Tugthúsmeistarinn mun koma við sögu í göngunni og fleiri merktarmenn sem tengjast málefninu og fangelsinu,“ segir Helgi, en gangan ber titilinn „Tugthúsmeistarinn, strípibúllur og fyrsti dómsalurinn“.

„Efnislega mun ég líka koma inn á kráarmenninguna, sem er ansi ung hérlendis miðað við aðrar þjóðir, enda voru búllurnar og landsmenn strípaðar af bjór langt fram eftir 20. öldinni,“ segir Helgi en tekur þó fram að eftir lögleiðingu bjórsins hafi meira líf færst í leikinn.

„Í kring um aldamótin færðist jafnvel enn meira líf í suma staðina með berholda kvenfólki til sýnis og dansiðkunar sem flutt var hingað í hundraðatali þegar mest var - aðeins farið í umfangið og starfsemi staðanna og þróunina síðan,“ segir Helgi.

„Gangan endar svo í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg þar sem forstöðumaður fangelsanna á höfuðborgarsvæðinu Guðmundur Gíslason tekur á móti okkur, segir undan og ofan af sögu þessa merka húss og fáum svo að koma í dómsalinn merka á 2. hæð hússins,“ segir Helgi að lokum.     

Gangan hefst við Stjórnarráðið klukkan 14:00 á morgun, 12. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×