Innlent

Mun boða forstjóra Barnaverndastofu á sinn fund

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgvin G. Sigurðsson er formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Björgvin G. Sigurðsson er formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis.
Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, ætlar að boða Braga Guðbrandsson, forstöðumann Barnaverndastofu, fyrir nefndina til þess að ræða gagnrýni hans á úrræðaleysi í málefnum kynferðisbrotamanna.

Bragi gagnrýndi Alþingi í kvöldfréttum RÚV fyrir að leyfa ekki eftirlit með barnaníðingum þegar barnaverndalögum var breytt í vor. „Barnaverndastofa hefur lagt fram tillögur og núna síðast við endurskoðun barnaverndalaga, sem Alþingi hefur því miður ekki tekið nógu alvarlega,“ sagði Bragi. Tillögurnar snúist um að skapa heimild í lögum til að fylgjast með og hafa eftirlit með kynferðisbrotamönnum, með barnagirnd á háu stígi, eftir að þeir hafa lokið afplánun.

Björgvin G. Sigurðsson tók við embætti formanns allsherjar- og menntamálanefndar þegar Alþingi kom saman í október. Hann segist ekki hafa séð viðtalið við Braga í kvöld og því ekki geta tjáð sig um athugasemdir hans. En Björgvin segist ætla að boða Braga á fund nefndarinnar til að ræða málið. Þarna sé um að ræða málaflokk þar sem allir vilji gera vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×