Innlent

Flestir gefa ekkert upp

Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir bítast um embætti formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 17.-20. nóvember.
Bjarni Benediktsson og Hanna Birna Kristjánsdóttir bítast um embætti formanns Sjálfstæðisflokksins á landsfundi Sjálfstæðisflokksins 17.-20. nóvember.
Meirihluti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins gefur ekki upp afstöðu sína varðandi stuðning við formannsefnin í Sjálfstæðisflokknum. Þrír borgarfulltrúar styðja Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í formanninn.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fer fram í Laugardalshöll hinn 17.-20. nóvember næstkomandi.

Fyrir síðustu helgi kannaði fréttastofan afstöðu þingflokks Sjálfstæðisflokksins til formannsefna á landsfundi, þeirra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og Bjarna Benediktssonar. Þá voru sjö tilbúnir að lýsa yfir stuðningi við Bjarna, sem er um helmingur þingflokksins. Daginn eftir kannaði Morgunblaðið afstöðu þingmanna og þá voru tíu þingmenn tilbúnir að styðja Bjarna.

Fréttastofan kannaði í dag afstöðu borgarfulltrúa og varaborgarfulltrúa til formannsefnanna. Um er að ræða samstarfsfólk Hönnu Birnu, en hún er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Þau sem lýsa yfir stuðningi við Hönnu Birnu eru borgarfulltrúarnir Júlíus Vífill Ingvarsson, Kjartan Magnússon Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Einn lýsir yfir stuðningi við Bjarna Bendiktsson, en það er varaborgarfulltrúinn Hildur Sverrisdóttir.

Þau sem gefa ekki upp afstöðu sína, sem er meirihlutinn, eru þau Geir Sveinsson, Gísli Marteinn Baldursson, Áslaug María Friðriksdóttir, Jórunn Frímannsdóttir og Marta Guðjónsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×