Innlent

Um 60 þúsund Neyðarkallar seldust

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, seldi Neyðarkallinn í Kringlunni um síðustu helgi.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, seldi Neyðarkallinn í Kringlunni um síðustu helgi. mynd/ valli.
Sala björgunarsveitanna á Neyðarkallinum í síðustu viku gekk vel, að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar.

Neyðarkallinn var seldur um allt land fyrstu helgina í nóvember og Ólöf segir að menn telji að um 60 þúsund eintök hafi selst. Hver Neyðarkall var seldur á 1500 krónur og því má áætla að tekjur af sölunni hafi numið um 90 milljónum króna. Endanlegar sölutölur liggja þó ekki fyrir vegna þess hve salan var dreifð um landið.

Þetta er í sjötta skiptið sem Neyðarkallinn er seldur og er alltaf nýr kall á hverju ári. „Það er alltaf sitthver fígúran þannig að þetta er safngripur hjá mörgum sem vilja eiga alla röðina,“ segir Ólöf. Hún segir að Neyðarkallinn verði seldur áfram á næstu árin svo lengi sem almenningur mun halda áfram að styðja björgunarsveitirnar með kaupum á honum.

Aðspurð segir Ólöf að sala Neyðarkallsins sé næst mesta tekjuöflun Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, en mestar tekjur eru af flugeldasölu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×