Innlent

Stofnunum hefur fækkað um fimmtán prósent

Ráðuneytum fækkaði um tvö í fyrra og fyrirhuguð er fækkun um eitt í viðbót með stofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis.
Ráðuneytum fækkaði um tvö í fyrra og fyrirhuguð er fækkun um eitt í viðbót með stofnun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Mydn/GVA
Alls hefur ríkisstofnunum og ráðuneytum fækkað um 30 síðan í ársbyrjun 2010, eða um 15 prósent. Þetta er samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar um að fækka stofnunum um 60-80 til ársloka 2012. Alls voru stofnanir ríkisins 200 og því gert ráð fyrir fækkun um 30 til 40 prósent.

Fyrir Alþingi liggja fjögur frumvörp innanríkisráðherra sem gera ráð fyrir að stofnunum ráðuneytisins fækki um tíu.

Hrannar B. Arnarson, aðstoðarmaður forsætisráðherra, segir sameiningar stofnana komnar vel á veg. Í einhverjum efnum séu þær á undan áætlun, til að mynda hafi ekki verið gert ráð fyrir innanríkisráðuneyti á þessu kjörtímabili.

Stefnt er að frumvarpi um nýtt atvinnuvegaráðuneyti á kjörtímabilinu, en óljóst er hvenær það verður lagt fram. Ljóst er að Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, er andvígur frumvarpinu. Hann hefur þó látið hafa eftir sér að stuðningur hans við ríkisstjórnina velti ekki á því.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×