Innlent

Hæsturéttur staðfestir úrskurð yfir dínamítmanni

Dínamít.
Dínamít.
Hæstiréttur Íslands staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem hefur játað að hafa stolið 250 kílóum af dínamíti og um 200 stykkjum af rafmagnshvellhettum.

Maðurinn var á skilorði og úrskurðaði Héraðsdómur Reykjavíkur að maðurinn þyrfti að afplána eftirstöðvar refsingar sinnar, sem telja 300 daga.

Maðurinn, sem er 34 ára gamall, var handtekinn 9.  október síðastliðinn og vísaði hann lögreglu á dínamítið og hvellhetturnar strax sama kvöld og játað við skýrslutöku hjá lögreglu  að hafa brotist inn í téða gáma og stolið sprengiefni og hvellhettum.

Þá kemur fram í úrskurðinum að hann hefði notað 2,5 kíló af dínamítinu til að valda sprengingu á víðavangi við Krýsuvíkurveg en afganginum hafi hann framvísað til lögreglu.

Maðurinn á að baki sakarferil sem sé nær samfelldur frá árinu 1997 fyrir fjölda auðgunarbrota, fíkniefnalagabrota og umferðarlagabrota. Frá árinu 2009 hefur maðurinn hlotið fjórum sinnum dóma fyrir auðgunarbrot, bæði fyrir þjófnaði og hylmingu.

Þá eru fjöldi mála mannsins til meðferðar hjá lögreglu nú, þar á meðal séu hylmingarbrot og aragrúi umferðarlagabrota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×