Innlent

Stefna að því að gera veskið óþarft

Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, ásamt Niels Hendrik Andersen frá Oberthur og Fredrik Westerman frá Visa í Evrópu.
Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, ásamt Niels Hendrik Andersen frá Oberthur og Fredrik Westerman frá Visa í Evrópu. Fréttablaðið/anton
Valitor mun bráðlega fara af stað með verkefni þar sem hópi viðskiptavina fyrirtækisins verður boðið að nota farsíma sinn sem kreditkort. Um er að ræða samstarfsverkefni Valitor, Visa í Evrópu og norska tækniöryggisfyrirtækisins Oberthur en Ísland verður tilraunamarkaður fyrir þessa nýju tækni.

„Það er mér sérstök ánægja að kynna í dag nýjung á sviði greiðslulausna sem mun á næstu misserum breyta því hvernig fólk hagar sínu daglega lífi,“ sagði Viðar Þorkelsson, forstjóri Valitor, á blaðamannafundi í Hörpu í gær. Viðar sagði stefnu fyrirtækjanna vera að gera veskið óþarft með því að færa kredit- og debetkort inn í farsímann.

Tæknin gerir einstaklingum kleift að greiða fyrir hvers konar vörur og þjónustu með farsíma án snertingar við posa eða annan búnað.

Tilraunaverkefnið fer af stað í byrjun næsta árs og verður þúsund símnotendum boðið að taka þátt. Auk þess koma að því fjölmargir seljendur vöru og þjónustu. Verkefnið á Íslandi er það langstærsta sem ráðist hefur verið í með þessari tækni en mikil ánægja hefur mælst með hana þar sem hún hefur verið prófuð.

Viðar segir að gangi allt að óskum verði mögulegt að fara með verkefnið í almenna dreifingu á seinni hluta árs 2013.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×