Innlent

Félag gegn lokun athvarfs fyrir fólk með geðraskanir

Athvarfið Vin hefur verið fjölsótt þau tuttugu ár sem það hefur verið starfrækt. Um 25 til 30 gestir sækja Vin á hverjum degi.
Athvarfið Vin hefur verið fjölsótt þau tuttugu ár sem það hefur verið starfrækt. Um 25 til 30 gestir sækja Vin á hverjum degi.
Vin við Hverfisgötu, athvarf Rauða Krossins fyrir fólk með geðraskanir, mun loka dyrum sínum eftir tveggja áratuga starf, í lok mars á næsta ári að öllu óbreyttu. Meðlimir nýstofnaðs hollvinafélags athvarfsins, Vinafélagið, hyggjast standa vörð um starfsemina.

Ástæða þess að Rauði krossinn hefur ákveðið að loka Vin, er fjárhagslegs eðlis. Áætlaður rekstrarkostnaður athvarfsins á næsta ári er um 25 milljónir króna, að því er kemur fram í frétt á vef Rauða krossins, en þar segir jafnframt að á bilinu 25 til 30 gestir hafi að jafnaði sótt athvarfið hvern dag. Þar vinna fjórir starfsmenn.

Kristján Sturluson, framkvæmdastjóri Rauða krossins, segir á vefnum að samtökin treysti sér ekki til að halda rekstrinum áfram og hafi því leitað til Reykjavíkurborgar í september í fyrra varðandi aðkomu að rekstri Vinjar.

Þó að yfirvöld sýndu því áhuga að sinna málaflokki geðfatlaðra vel, hafi þó verið ljóst að borgin myndi ekki taka yfir reksturinn á Vin og því hafi verið ákveðið að loka athvarfinu. Kristján segist þó gjarna vilja sjá Vin starfa áfram, eða þá einhver önnur úrræði fyrir skjólstæðinga athvarfsins.

Vin fékk á dögunum Hvatningarverðlaun Geðhjálpar. Verðlaunin eru veitt fyrir nýjungar eða frumkvæði í þjónustu við þá sem glíma við geðraskanir og eru jafnframt hugsuð sem „stuðningsyfirlýsing og hvatning til einingar hjá þeim er starfa að bættum hag geðsjúkra".

Geðhjálp segist harma lokun Vinjar og lýsa yfir stuðningi við áframhaldandi starfsemi í athvarfinu.

Stofnfundur Vinafélagsins á fimmtudagskvöld var fjölsóttur og var Magnús Matthíasson kjörinn formaður.

Í tilkynningu frá Vinafélaginu er haft eftir Magnúsi að athvarfið í Vin sé einstakt og nauðsynlegt að allir taki höndum saman um að tryggja framtíð starfsins.

Það væri „miðpunktur í lífi fjölmargra einstaklinga".

Magnús kallaði eftir samvinnu Rauða krossins, Reykjavíkurborgar og ríkisins og hét stuðningi Vinafélagsins, sem hefur sett sér það markmið að safna árlega fyrir rekstrarkostnaði Vinjar, að frátöldum launakostnaði.

Hátt í 200 manns höfðu þegar gengið í Vinafélagið fyrir helgi, en árgjaldið, 3.000 krónur, rennur óskipt til starfseminnar í Vin.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×