Innlent

Fjórtán ára fangelsi fyrir árásina á Ólaf

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ólafur Þórðarson er enn á endurhæfingadeild Landspítalans.
Ólafur Þórðarson er enn á endurhæfingadeild Landspítalans.
Þorvarður Davíð Ólafsson hefur verið dæmdur í fjórtán ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps og fyrir fíkniefnabrot. Þorvarður réðst með fólskulegum hætti á föður sinn, Ólaf Þórðarson tónlistarmann, í nóvember á síðasta ári.

Í dómnum segir að árásin hafi verið mjög alvarleg. Þorvarður hafi ráðist á ofsafenginn hátt á föður sinn, slegið hann ítrekað með hnúajárni í höfuðið og sparkaði margsinnis í andlit hans þar sem hann lá bjargarlaus í gólfinu. Árásin hafi verið svo ofsafengin og hömlulaus að hann hætti ekki atlögunni fyrr en hann rann til í blóði.

Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi játað sök en neitaði því að fyrir honum hafi vakað að ráða föður sínum bana. Margt bendi til þess að um hríð hafi búið með Þorvarði Davíð ásetningur um að vinna föður sínum mein.

Ólafur Þórðarson liggur enn þungt haldinn á endurhæfingadeild Landspítalans á Grensás eftir árásina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×