Enski boltinn

Rooney: Ekki sá fyrsti til að blóta í sjónvarpi og verð ekki sá síðasti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney .
Wayne Rooney . Mynd/AP
Wayne Rooney tapaði áfrýjun sinni og þarf því að taka út tveggja leikja bann fyrir að blóta í sjónvarpsmyndavél þegar hann fagnaði þriðja marki sínu á móti West Ham um síðustu helgi.

Rooney gaf frá sér yfirlýsingu í gegnum talsmann sinn Ian Monk eftir að ljóst varð að hann myndi missa af undanúrslitaleik bikarsins á móti nágrönnunum í

Manchester City.

„Ég er rosalega svekktur að missa af tveimur leikjum þar af er annar þeirra undanúrslitaleikur bikarsins á Wembley. Ég er ekki sá fyrsti til að blóta í sjónvarpi og verð ekki sá síðasti. Ólíkt öðrum sem hafa blótað í sjónvarpinu þá baðst ég strax afsökunar. Samt er ég sá eini sem fer í bann fyrir að blóta. Þetta getur ekki verið sanngjarnt," sagði Rooney.

„Ég þarf samt að sætta mig við það sem gerðist og halda áfram. Það ætla ég líka að gera," sagði Rooney sem tryggði Mancehster United 1-0 sigur á Chelsea í gær í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Rooney mun auk bikarleiksins ekki verða með United í deildarleik á móti Fulham um næstu helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×