Innlent

Strandveiðimenn læri rétta meðferð á afla

Hluti strandveiðibáta fer á haf út án íss til að kæla aflann þótt sól sé sjaldan jafnhátt á lofti. Banna verður mönnum að fara íslausir út, segir fagstjóri hjá Matís.
Hluti strandveiðibáta fer á haf út án íss til að kæla aflann þótt sól sé sjaldan jafnhátt á lofti. Banna verður mönnum að fara íslausir út, segir fagstjóri hjá Matís.
„Við skynjuðum það á bryggjunni þegar við vorum að gera þessar mælingar að vilji er til að gera rétt, en oft skortir þekkinguna. Menn átta sig kannski ekki á því en margir hafa gott af smá kennslu í réttri aflameðferð og örverufræði,“ segir Jónas R. Viðarsson, fagstjóri Matís.

Stofnunin birti í síðustu viku úttekt sem sýnir að veiðar strandveiðibáta fara fram yfir heitasta árstímann á sumrin þegar fiskur er í slæmu ástandi af náttúrulegum ástæðum. Bátarnir halda sig gjarnan nærri landi þar sem fiskur er smár, meira er um orm í honum og liturinn á roðinu dekkri. Aflanum er jafnan landað óslægðum og meðhöndlun hans með þeim hætti að illa er farið með hráefnið.

Í úttektinni er sérstök athygli vakin á því að kælingu afla hjá nokkuð stórum hluta strandveiðiflotans sem og dagróðrabáta í aflamarki er ábótavant. Aflinn sem seldur var í beinum viðskiptum var verr kældur en sá sem seldur var á mörkuðunum.

Jónas bendir á að beint samhengi sé á milli kælingar og gæða afla strandveiðibátanna.

„Við þekkjum það að fiskurinn er ekki besta hráefnið af náttúrulegum ástæðum á þessum árstíma. Fiskurinn er að ná sér eftir hrygningu og er að fita sig aftur. Sjávarhitastig er mjög hátt, allt að fjórtán gráður. Hráefnið sem fæst við slíkar aðstæður er öðruvísi en á öðrum árstímum. Margir þeirra sem vinna eigin afla, sérstaklega þeir sem eru að frysta eða salta, draga úr umsvifum sínum á þessum árstíma og stoppa jafnvel alveg. En þeir sem eru að flytja út ferskt þurfa að reiða sig á þann afla sem býðst hverju sinni,“ segir Jónas en bendir á að fyrirkomulag veiðanna hvetji til að menn fari á sjó hvernig sem viðrar þá fjóra daga vikunnar sem leyfilegt er að fara út.

„Í skýrslunni mælum við með því að skylda menn á námskeið áður en þeir fá veiðileyfi. Við vorum með þrettán námskeið víðs vegar um landið í vor. En mætingin hefði getað orðið betri ef menn hefðu verið skyldaðir til að mæta,“ segir Jónas.

jonab@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×