Erlent

Sölumaður dauðans á leið í lífstíðarfangelsi

Bandarískur dómstóll hefur fundið fyrrum rússneska liðsforingjann Viktor Bout sekann um að hafa ætlað að selja Farc skæruliðunum í Kólombíu þungavopn.

Bout sem gengur undir viðurnefninu Sölumaður dauðans á yfir höfði sér lífstíðardóm fyrir þessa vopnasölu en dómurinn yfir honum verður kveðinn upp í febrúar á næsta ári. Lögmenn Bout héldu því fram að hann hafi aðeins ætlað að selja tvær fraktflugvélar í Kólombíu. Í vélunum var meðal annars að finna 100 flugskeyti og 20.000 hríðskotabyssur.

Mál Bout vakti mikla athygli á sínum tíma og gerð var kvikmyndin Lord of War um æfi hans með Nicholas Cage í aðalhutverki. Bout var handtekinn í Taílandi 2008 og framseldur til Bandaríkjanna tveimur árum síðar.

Upphafið að veldi Bout má rekja til falls Sovétríkjanna í upphafi tíunda áratugarins á síðustu öld. Þá komst hann yfir gífurlegt magn af vopnum sovéska hersins sem geymd voru í Úkraníu. Hann seldi þessi vopn víða um heiminn en þó aðallega til ýmissa skæruliðahópa og vafasamra ríkisstjórna í Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×