Innlent

Vill eftirlitsheimildir vegna barnaníðinga

Bragi Guðbrandsson.
Bragi Guðbrandsson.
Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu, segir knýjandi að Alþingi samþykki lög sem geri kleift að hafa eftirlit með þeim kynferðisbrotamönnum sem hættulegastir séu börnum.

„Hérlendis eru engar heimildir til eftirlits með kynferðisbrotamönnum sem hlotið hafa dóma og eru búnir að afplána þá," segir Bragi. Hann kveður Barnaverndarstofu hafa lagt til við endurskoðun barnaverndarlaga í fyrra að slíkt eftirlit yrði gert heimilt með kynferðisbrotamönnum sem metnir væru mjög hættulegir. Það hafi þó ekki fengist í gegn hjá félagsmálanefnd Alþingis. Björgvin G. Sigurðsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, sagðist á visir.is á föstudag vilja Braga á fund nefndarinnar til að ræða þessi mál.

Bragi segir að gert yrði áhættumat á þeim sem hlytu dóma fyrir kynferðisbrot gegn barni. „Þeim sem eru metnir með mikla áhættu, það er einstaklingum með barnagirnd á háu stigi, þarf beinlínis að hafa eftirlit með eftir afplánun. Þetta hefur reynst mjög vel í Bandaríkjunum og Bretlandi sem dæmi," segir Bragi.

Að sögn Braga yrðu menn heimsóttir reglulega og þeim sett skilyrði. „Til dæmis um að þeir megi ekki dvelja undir sama þaki og börn eða vera einir með börnum. Ef þeir séu staðnir að slíku sé það ígildi brots. Þá væru heimildir til að vara þá við sem byggju í næsta nágrenni við þessa menn," segir Bragi og bætir við að veita yrði viðkomandi strangt aðhald. „Margir þeirra reyna að halda sig á mottunni en þeir ráða ekki við sig sjálfir því þetta er svo sterk árátta. Það eru jafnvel dæmi um að þeir sjálfir séu eftirliti síst mótfallnir."

Þótt slíkt eftirlit og skilyrði myndi skerða persónufrelsi manna eftir afplánun segir Bragi það vel réttlætanlegt. Miklir hagsmunir séu í húfi fyrir hugsanlega þolendur. „Ég tel að okkur beri skylda til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að varna því að börn verði fyrir barðinu á þessum mönnum. Þessar lagabætur myndu örugglega forða mörgum börnum í framtíðinni," segir hann.

Einnig nefnir Bragi að Barnaverndarstofa þurfi að fá upplýsingar um búsetu manna eftir afplánum og heimild til að tilkynna barnaverndarnefnd á þeim stað um búsetuna. „Menn með barnagirnd á háu stigi eru gangandi tímasprengjur; síbrotamenn á þessu sviði og geta ekki stöðvað sig nema með verulegri hjálp," segir Bragi, sem telur að þennan hóp manna fylli á bilinu fimm til tíu einstaklingar hérlendis.

„Við getum gert svo miklu betur í þessum efnum og þetta nýjasta mál er mjög gott dæmi um það," segir Bragi og vísar í dóm yfir manni sem braut á ungum dreng í áraraðir þrátt fyrir að lögregla varaði móður drengsins við manninum „Þessi maður er búinn að fá fimm dóma á einum áratug. Það segir okkur að fælingarmáttur refsingarinnar hefur lítið að segja í þessu tilliti," segir Bragi. Dómurinn veki margar áleitnar spurningar sem þurfi að skoða. „En það er eins gott að hrapa ekki að ályktunum." gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×