Innlent

Um 65% vilja ljúka viðræðum við ESB

Tveir af hverjum þremur landsmönnum vilja ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og setja samning í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Þriðjungur vill draga aðildarumsóknina til baka.

Alls vildu 65,3 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni ljúka viðræðunum en um 34,7 prósent sögðust vilja draga umsóknina til baka.

Heldur fleiri vilja ljúka aðildarferlinu nú en þegar síðast var spurt um aðildarumsóknina í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, í september síðastliðnum. Þá vildu 36,6 prósent draga umsóknina til baka en 63,4 prósent ljúka viðræðunum.

Afstaða landsmanna nú er að heita má sú sama og í könnun sem gerð var í janúar síðastliðnum. Þá vildu 65,4 prósent ljúka viðræðunum en 34,6 prósent hætta þeim.

Meirihluti þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn yrði gengið til kosninga nú vill ljúka viðræðunum, eða 56,4 prósent stuðningsmanna flokksins.

Stuðningsmenn Framsóknarflokksins voru afgerandi í andstöðu við aðildarviðræðurnar. Um 63,3 prósent vildu draga umsóknina til baka en 36,7 prósent halda viðræðunum áfram.

Þorri stuðningsmanna Samfylkingarinnar, 94,6 prósent, vill ljúka viðræðunum, einungis 5,4 prósent vilja draga umsóknina til baka. Meðal stuðningsmanna Vinstri grænna sögðust 76,2 prósent vilja ljúka viðræðunum.

Heldur fleiri konur vilja hætta viðræðunum en karlar, auk þess sem íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til að vilja draga aðildarumsóknina til baka en þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Hringt var í 800 manns dagana 7. og 8. desember. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Hvort myndir þú heldur kjósa: 1) Að draga til baka umsókn um aðild að Evrópusambandinu, eða 2) Að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarsamninginn? Alls tók 89,1 prósent afstöðu til spurningarinnar.

brjann@frettabladid.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.