Erlent

Flóttakýr búin að setja Þýskaland á annan endann

Yvonne á beit. Grunlaus vegfarandi náði þessari mynd af Yvonne en þá var hennar ekki ákaft leitað eins og nú.
Yvonne á beit. Grunlaus vegfarandi náði þessari mynd af Yvonne en þá var hennar ekki ákaft leitað eins og nú.
Þýska flóttakýrin Yvonne hefur sett Þýskaland á annan endann. Dýraverndunarsinnar leita hennar ákaft, þýska blaðið Bildt hefur lofað hverjum þeim sem bjargar henni tíu þúsund evrur á meðan lögreglan hefur gefið veiðimönnum grænt ljós á að skjóta hana af færi. Og það sem meira er; hindúar eru brjálaðir.

Það var í maí sem kýrin Yvonne strauk af búgarði í Bavaría í Þýskalandi en til stóð að slátra henni. Lífsvilji kýrinnar var slíkur að hún laumaði sér á óskiljanlegan hátt framhjá rafmagnsgirðingu á búgarðinum og hvarf.

Í þrjá mánuði spurðist lítið til hennar þar til lögreglubíll ók næstum á hana. Í kjölfarið ákvað lögreglan að kýrin væri hættuleg umferð á svæðinu og gaf út tilkynningu um að veiðimönnum væri frjálst að fella hana.

Veiðimennirnir á svæðinu eru reyndar alræmdir, en þeir felldu skógarbjörn árið 2006, þann fyrsta sem sést hefur til í Þýskalandi í 170 ár.

Dýraverndunarsinnar brugðust því ókvæða við þegar fregnir bárust af fyrirskipun lögreglunnar og buðust til þess að kaupa kúna af búgarðinum fyrir um 600 evrur.

Til þess að finna kýrina á undan veiðimönnum fengu dýraverndunarsinnar nautið Ernst til þess að baula á svæðinu til þess að lokka Yvonna úr fylgsni sínu. Þeir lýstu nautinu sem Georg Clooney nautanna, og að djúpur bassi Ernst yrði til þess að Yvonne myndi ekki ráða við sig og leita til sjarmörsins í von um rómantíska stund. Sú hugmynd reyndist þó andvana fædd þegar í ljós kom að Ernst hafði verið geldur.

Þá voru góð ráð dýr. Franziska Matti, dýramiðill, var þá kölluð til, en hún segist geta átt samskipti við dýr með hugarorkunni einni. Hún heldur því fram að hún hafi rætt við Yvonne, sem sagðist hafa það gott, en hún væri ekki tilbúin til þess að koma úr felum.

Á laugardaginn síðasta breyttist leitin að Yvonne í nokkurskonar gullæði. Blaðið Bildt lofaði hverjum þeim sem fyndi kúna, og skilaði henni á heilu og höldnu, tíu þúsund evrur.

Ekkert hefur þó spurst til Yvonne, einn ellefu ára gamall gutti sagðist þó hafa fundið hófför Yvonne.

Nú hafa dýraverndunarsamtökin gert út þyrlu til þess að finna kúna auk þess sem kálfur Yvonne, Friesi, undirgengst nú stranga þjálfun til þess að kalla á móður sína, en mikil tilfinningabönd ríkja á milli kúa og kálfa, að mati dýraverndunarsinna.

Auk dýraverndunarsinna þá hefur samfélag Hindúa í Þýskalandi sent út fréttatilkynningu þar sem þeir gagnrýna þýsk yfirvöld harðlega fyrir að gefa út leyfi til þess að drepa dýrið. Hindúarnir, sem telja kýr heilög dýr, krefjast þess að leyfið til þess að drepa verði afturkallað. Við því hefur þó ekki verið orðið.

Enn leita Þjóðverjar að Yvonne og því málinu langt því frá að vera lokið.

Hægt er að nálgast frekari fréttir um ótrúlega leit að Yvonne hér og hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×