Innlent

Níu brennur á höfuðborgarsvæðinu

JHH skrifar
Byrjað verður að taka á móti efni í áramótabrennurnar í fyrramálið en þær verða á sömu stöðum og í fyrra. Vel er fylgst með því hvað fer á brennurnar og eru um það skýrar reglur hvað má fara í bálkestina. „Best er að fá hreint timbur á brennurnar", segir Þorgrímur Hallgrímsson brennukóngur og rekstrarstjóri á hverfastöð Framkvæmda- og eignasviðs. „Plast, gúmmí og unnið timbur á ekki erindi á köstinn." Starfsmenn hverfastöðvanna verða á vettvangi og leiðbeina þeim sem koma með efni. Hætt verður að taka á móti efni þegar brennurnar eru orðnar hæfilega stórar eða í síðasta lagi klukkan 12 á gamlársdag.

„Stærstur hluti þess sem fer á brennurnar eru vörubretti en einnig fáum við afganginn af jólatréssölunni," segir Þorgrímur. „Það er liðin tíð að fólk komi með drasl úr geymslum enda er það margt sem ekki má fara á brennurnar". Stærð brennanna ræðst af mati Eldvarnareftirlitsins á aðstæðum á hverjum stað. Brennurnar eru á sömu stöðum og í fyrra og rétt eins og þá eru stóru brennurnar fjórar og þær minni fimm talsins.

1) Við Ægisíðu, stór brenna.

2) Skerjafjörður gegnt Skildinganesi 48 - 52, lítil brenna.

3) Við Suðurhlíðar, neðan við Fossvogskirkjugarð, lítil brenna.

4) Vestan Laugarásvegar móts við Valbjarnarvöll, lítil brenna.

5) Geirsnef, borgarbrenna, stór brenna.

6) Við Suðurfell, lítil brenna.

7) Fylkisbrennan, við Rauðavatn, stór brenna.

8) Gufunes við gömlu öskuhaugana, stór brenna.

9) Kléberg á Kjalarnesi, lítil brenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×