Innlent

Stríðsfréttaritari Íslands: Ótrúlegt ár Jóns Björgvinssonar

Jón Björgvinsson, myndatökumaður í Líbanon.
Jón Björgvinsson, myndatökumaður í Líbanon.
Það er líklega óhætt að segja að Jón Björgvinsson sé eini stríðsfréttaritari Íslands. Á þessu ári hefur hann verið mitt í miðjum átökunum í Mið-Austurlöndum, eða arabíska vorinu eins og það hefur oft verið kallað.

Í viðtali í Kastljósi í kvöld lýsti Jón ótrúlegu ári í lífi sínu. Meðal annars fann hann rauðan depil á skyrtu sinni þegar hann stóð úti á svölum hótelsins sem hann gisti á í Túnis, í fyrstu byltingunni í Mið-Austurlöndum. Jón var fljótur að átta sig á því að depillinn var ljósdepill af riffli leyniskyttu sem hafði fréttaritarann í sigti sínu. Þá skipti það valdhafana engu hvort fréttamaður yrði myrtur eða ekki. Jón var snöggur að átta sig á stöðunni og stökk inn á hótelherbergi í skjól.

Það er óhætt að segja að starf Jóns sé með því hættulegra sem gengur og gerist í veröldinni. Þannig lenti hann í líkamsárás á fyrstu dögum byltingarinnar í Egyptalandi. Hann vissi ekki þá, að stjórnvöld höfðu gefið „veiðileyfi" á erlenda fréttamenn í landinu. Hann beinbrotnaði í árásinni.

„Það lentu allir fréttamennirnir í þessu. Hóteli var eins og bráðamóttaka fyrstu dagana," lýsti Jón í Kastljósinu fyrr í kvöld. Hann bætti við að þetta væri þekkt aðferð einvalda, að hleypa mönnum út á göturnar, sem hefðu það hlutverk að ógna íbúum, og þá var áhrifaríkast að ráðast á fréttamennina.

En Jón lét engan bilbug á sér finna. Hann hélt áfram að mynda átökin, bæði í Túnis, Líbíu og Egyptalandi. Hann stóð meðal annars mitt á milli í skotbardögum mótmælenda í Líbíu og stjórnarhers Gaddafis. Enda var meginmunur á byltungunum í Líbíu og löndunum á undan, það var svo mikið af vopnum í umferð í Líbíu, að strax í upphafi breyttust mótmælin í styrjöld.

Jón starfar sem myndatökumaður fyrir fréttastofur í Evrópu. Það eru þær sem senda Jón í stríð. Jón segist ekki þurfa að selja efnið til fréttaveitanna í heiminum eins og sumir stríðsfréttaritarar. Hann er að auki tryggður, en það er ekki ókeypis sagði hann í viðtalinu.

Jón sagði þó bjartar hliðar á öllu. Hann sýndi myndskeið sem hann tók upp á hitafundi Talibana á stórhættulegu svæði í Afganistan. Þar má sjá Talibanana drekka pepsí og Mountain Dew. Jón segir það gefa von um að það sé kannski ekki jafn breið gjá á milli menningarheima og oft sýnist.

Spurður hvað fjölskyldunni finnist um starf hans svaraði Jón, sem óttast að fjölskyldan venjist starfinu hans of mikið: „Ég ímynda mér að þau séu flest farin að venjast þessu. Maður óttast helst að þeim sé sama."

Hér er hægt að horfa á fróðlegt viðtal við Jón í Kastljósinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×