Erlent

Áhorfendur bauluðu á Pútín

Frá glímukeppninni í gær.
Frá glímukeppninni í gær. mynd/AFP
Áhorfendur á glímukeppni í Moskvu bauluðu á sitjandi forsætisráðherra Rússlands, Vladímír Pútín, þegar hann steig inn í hringinn eftir viðureign Bandaríkjamannsins Jeff Monson og hins rússneska Fedor Emelianenko.

Pútín er mikill aðdáandi Emelianenko en hann keppir í blönduðum bardagalistum. Hann mætti því á glímuna í Moskvu til að sjá Rússann sigra Bandaríkjamanninn.

Rúmlega 20.000 gestir voru í Olympic Stadium í Moskvu. Heimamaðurinn bar sigur úr býtum en áhorfendurnir voru allt annað en hamingjusamir með tilraun Pútíns til að komast í kastljósið.

Viðbrögð áhorfenda komu forsætisráðherranum á óvart en hann hélt ró sinni og hrósaði Emelianenko.

Frá 2000 til 2008 gengdi Pútín forsetaembætti í Rússlandi en hann hefur ákveðið að bjóða sig aftur fram. Kosningarnar fara fram í mars á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×