Erlent

Fær tólf milljónir í miskabætur eftir heldur furðulegan misskilning

Darwin-flugvöllur í Ástralíu
Darwin-flugvöllur í Ástralíu
Það er ekki öll vitleysan eins líkt og ástralskur karlmaður hefur fengið að kynnast en hann hefur nú fengið um hundrað þúsund dollara, um tólf milljónir króna, í miskabætur frá áströlskum yfirvöldum eftir að hafa setið í fangelsi í þrjá daga í júní á síðasta ári.

Maðurinn, Neil Parry, var að koma heim til sín í Ástralíu eftir ferðalag erlendis þegar hann var handtekinn á Darwin-flugvelli. Tollverðir töldu hann vera að smygla inn dópi í sjampó-brúsum. Þeir gerðu tvo sjampóbrúsa upptæka og einn brúsa af hárnæringu. Tollverðir töldu að í brúsunum væri ekki sjampó og hárnæring heldur einhvers konar dóp í fljótandi formi.

Parry var hent í steininn og þar þurfti hann að dúsa í þrjá sólarhringa án þess að fá að ræða við lögfræðing eða segja sína skoðun á málinu. Tollurinn var hinsvegar alveg viss um að hann væri að reyna að smygla dópi inn í landið.

Hún var því heldur vandræðaleg ferðin sem lögreglan fór í fangelsið sem Parry dvaldi í þremur dögum eftir að hann var tekinn. Þar tjáði lögreglan honum að tollverðirnir hefðu haft rangt fyrir sér. Eftir að niðurstöður úr efnagreiningu bárust kom í ljós að ekkert dóp var í brúsunum, heldur einungis sjampó og hárnæring.

Nú hafa yfirvöld ákveðið að greiða Parry um tólf milljónir í miskabætur eftir að hafa setið í steininum í þrjá sólarhringa. Hvort hann fái sjampóið og hárnæringuna aftur fylgir ekki sögunni, en hann ætti að geta keypt sér nóg af sápu fyrir upphæðina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×