Innlent

Sjálfstæðiskonur fagna framboði Hönnu Birnu

Hanna Birna.
Hanna Birna.
Landssamband sjálfstæðiskvenna fagnar framboði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur til formanns Sjálfstæðisflokksins samkvæmt tilkynningu sem sambandið sendi frá sér.

Þar segir meðal annars að Hanna Birna sé fyrsta konan sem býður sig fram til formanns í 82 ára sögu flokksins, en hún býður sig fram gegn sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Bjarna Benediktssyni.

Landssambandi Sjálfstæðiskvenna þykir Hanna Birna vera sterkur leiðtogi, en það hefur hún meðal annars sýnt með störfum sínum sem borgarstjóri og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík að mati sambandsins.

Svo segir í tilkynningunni: „Hanna Birna hefur með hugrekki sínu og hugsjónum haft kjark til að breyta stjórnmálunum í borginni og náð góðum árangri í að sætta ólík sjónarmið og fá fólk til að vinna saman að góðum málefnum fyrir íbúa borgarinnar.

Sjálfstæðiskonur binda miklar vonir við Hönnu Birnu og telja að framboð hennar muni efla traust á Sjálfstæðisflokknum og auka veg hans. Þá hvetur Landssambandið konur til að bjóða sig fram til áhrifa á vettvangi stjórnmálanna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×