Innlent

Alltaf að bæta mig

Á ennisbandi Kristjáns sést vel hver eftirlætis íþróttamaður hans er, sjálf körfuknattleiksgoðsögnin Michael Jordan. „Það verður aldrei neinn betri en Jordan. Taktarnir hans voru rosalegir,“ segir Kristján, sem hætti nánast að fylgjast með NBA-deildinni í körfubolta þegar Jordan lagði skóna á hilluna.
Á ennisbandi Kristjáns sést vel hver eftirlætis íþróttamaður hans er, sjálf körfuknattleiksgoðsögnin Michael Jordan. „Það verður aldrei neinn betri en Jordan. Taktarnir hans voru rosalegir,“ segir Kristján, sem hætti nánast að fylgjast með NBA-deildinni í körfubolta þegar Jordan lagði skóna á hilluna.
Kristján Magnús Karlsson, 31 árs þroskahamlaður íþróttamaður og starfsmaður Vífilfells, æfir íþróttir af kappi alla daga vikunnar nema sunnudaga. Vilhelm Gunnarsson ljósmyndari og Kjartan Guðmundsson blaðamaður fylgdust með Kristjáni í leik og starfi.

„Aðaláhugamálið mitt er að bæta mig sífellt, jafnt í íþróttunum sem og öllu öðru sem ég geri," segir Kristján. Kristján, sem er þroskahamlaður, æfir lyftingar, fótbolta, boccia og frjálsar íþróttir með íþróttafélaginu Ösp.

Annir Kristjáns við æfingarnar eru svo miklar að foreldrum hans, þeim Margréti Kristjánsdóttur og Karli Þorsteinssyni, er á köflum nóg um. „Hann æfir alla daga nema sunnudaga, en þá fer hann heldur ekki á fætur fyrr en eftir hádegi," segir Margrét og hlær.

„Á virkum dögum fer hann á fætur klukkan sjö, vinnur allan daginn og rýkur svo beint á æfingu. Tímaskorturinn gerir það að verkum að Kristján þarf oft að skipta um föt í bílnum á leiðinni á æfingar. Oftast er hann ekki kominn heim til sín fyrr en átta eða níu á kvöldin, dauðþreyttur. Það vantar aðeins upp á jafnvægið hjá honum svo hann þarf að hafa meira fyrir íþróttunum en margir aðrir," segir Margrét og bætir við að þegar Kristján fæddist hafi foreldrar hans haldið að hann gæti aldrei stundað íþróttir af neinu tagi.

„En íþróttirnar hafa hjálpað honum afskaplega mikið. Kristján er virkilega duglegur og fylginn sér. Ef hann ætlar sér eitthvað þá gefst hann ekki upp fyrr en það tekst," segir Margrét.

Hægt að fletta myndasafninu af Kristjáni með því að smella á myndina af honum fyrir ofan eða tengilinn á myndasíðu Vísis hér fyrir neðan.

Kristján Karl æfir knattspyrnu hjá íþróttafélaginu Ösp auk boccia, frjálsa íþrótta og lyftinga. "Ég get ekki valið milli þessara íþróttagreina, mér finnst þær allar jafn skemmtiegar," segir Kristján.
Á ennisbandi Kristjáns sést vel hver eftirlætis íþróttamaður hans er, sjálf körfuknattleiksgoðsögnin Michael Jordan. "Það verður aldrei neinn betri en Jordan. Taktarnir hans voru rosalegir,“ segir Kristján, sem hætti nánast að fylgjast með NBA-deildinni í körfubolta þegar Jordan lagði skóna á hilluna.Mynd/Vilhelm
Kristján starfar í safadeild Vífilfells, en starfið fékk hann fyrir fimmtán árum í gegnum samstarf milli Öskjuhlíðarskóla og ýmissa fyrirtækja., Í vinnunni gengur Kristján úr skugga um að allt fari rétt fram. “Kristján hefur unnið hér í fimmtán ár og er yndislegur maður, ábyggilegur, umhyggjusamur og þægilegur í umgengni,” segir Anna María Pétursdóttir, starfsmannastjóri fyrirtækisins og bætir við að Kristján sé einnig glöggur og taki oft eftir hlutum, sem mættu betur fara, sem aðrir taki ekki eftir. “Hann gengur hér um fyrirtækið og býður góðan daginn og það er mikil gleði sem fylgir honum,” segir Anna María.
Foreldrar Kristjáns sækja skutla honum í og úr vinnu og á æfingar, sem eðli málsins samkvæmt tekur sinn tíma. „Núna dreymir mig um að taka bílpróf. Það myndi létta örlítið álaginu af mömmu og pabba,“ segir Kristján.
Kristján bjó á Blönduósi fyrstu þrjú ár ævinnar, en þá fluttist fjölskyldan til Danmerkur og dvaldi þar í fjögur ár. Í Danmörku var hann fyrst í sérskóla fyrir fötluð börn og svo í almennum leikskóla, og var orðinn altalandi á dönsku eftir fyrsta mánuðinn í almenna leikskólanum. Þegar heim kom gekk Kristján svo í Öskjuhlíðarskóla þar til hann hóf störf hjá Vífilfelli fyrir fimmtán árum.
Eins og sést á herbergi Kristjáns á heimili fjölskyldunnar við Básenda er hann eitilharður Valsari í gegn og Arsenal-maður fram í fingurgóma. Hann hefur einnig áhuga á tónlist og er Sálin hans Jóns míns í mestu uppáhaldi. “Eitt sinn var Kristján plötusnúður á böllum fyrir fatlaða í Árseli, en hætti því fljótlega því þá gat hann ekki dansað á meðan,” segir Margrét móðir Kristjáns.
Yfirleitt gegnir Kristján stöðu markvarðar í fótboltanum, en segist þó vera svo almennilegur við þjálfarann að geta brugðið sér í vörnina þegar þess er þörf. „Það er gott að vera fjölhæfur. Ég pæli mikið í þjálfunaraðferðum, til dæmis því sem Arsene Wenger gerir hjá Arsenal, og gæti alveg hugsað mér að gerast spilandi aðstoðarþjálfari í framtíðinni,“ segir Kristján.
Tvær af helstu ástríðum Kristjáns eru lyftingar og enska knattspyrnufélagið Arsenal. Mér leist ekki nógu vel á Arsenal-liðið í byrjun tímabilsins en nú er það að koma til,“ segir Kristján, sem hefur tamið sér bjartsýni í lífinu.
"Ég verð stundum þreyttur eftir átökin í æfingunum. Lykillinn er þó að fara snemma að sofa, um níuleytið á kvöldin, og þá líður mér ágætlega daginn eftir," segir Kristján.
"Kristján er sterkur félagslega og þykir mjög skemmtilegur og kammó. Ég vil meina að hann hafi farið þetta á eigin krafti," segir Margrét um son sinn.
"Íþróttirnar hjálpa mjög til við jafnvægið hjá Kristjáni," segir Margrét móðir hans. "Hann styrkist líkamlega og einbeitingin eykst."
Fjölskyldan slakar á á heimilinu við Básenda, ásamt læðunni Cleópötru. "Að sjálfsögðu dreymir Kristján um að losna einhvern tíma frá mömmu og pabba, búa á eigin vegum og finna sér lífsfötunaut, en hann er svo upptekinn að hann má varla vera að því," segir Margrét móðir Kristjáns og hlær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×