Innlent

Biskupsmálið hefur tekið á

Höskuldur Kári Scram skrifar
Karl Sigurbjörnsson biskup ætlar að láta af embætti næsta sumar.
Karl Sigurbjörnsson biskup ætlar að láta af embætti næsta sumar. mynd/GVA
Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, ætlar að láta af embætti næsta sumar. Biskup tilkynnti þessa ákvörðun sína í setningarávarpi til Kirkjuþings í morgun.

Karl Sigurbjörnsson hefur verið gagnrýndur fyrir aðkomu sína að máli Ólafs Skúlasonar biskups en Karl segir ákvörðun sín um að láta af embætti tengist ekki þeirri gagnrýni beinlínis.

Hvers vegna tekur þú þessa ákvörðun núna?

„Hún hefur lengi legið fyrir. Ég hef aldrei ætlað að verða ellidauður í embættinu. Ég hef senn verið í fimmtán ár og það er ágætur tími. Minn skipunartími rennur út í lok næsta árs en ég tel rétt að nýta tíma birtu og grósku í sumarbyrjun til þess að nýr maður geti tekið við," sagði Karl við fréttastofu í morgun.

Tengist þessi ákvörðun biskupsmálinu svokallaða?

„Ekki beinlínis en auðvitað hefur það haft áhrif og það hefur tekið á."

Hvernig hefur það haft áhrif?

„Á svo marga vegu því að einlægar ásakanir og dómar þeir hafa auðvitað áhrif, ekki mann sjálfan heldur, á þá sem næst manni standa, þannig að það er óhjákvæmilegt. Engin sem er í forystu á Íslandi nýtur þess að vera á friðarstóli, það er nú bara þannig. Þetta eru átakatíma og það er mikil harka í gangi og hver og einn verður að horfast í augu við sjálfan sig með það hvort hann treysti sér að standa í því. En ég er enn á lífi og við sæmilega góða heilsu og ég treysti því að eiga góða daga við gefandi viðfangsefni," sagði Karl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×